Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Margrét Sanders gefur áfram kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins
Föstudagur 21. janúar 2022 kl. 09:48

Margrét Sanders gefur áfram kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins

Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjaensbæ hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða flokkinn áfram í komandi bæjarstjórnarkosningum. Á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ 20. janúar var ákveðið að halda prófkjör fyrir uppröðun á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. 

Margrét Sanders studdi tillöguna um prófkjör og gaf þá yfirlýsingu á fundinum að hún sækist eftir 1. sæti á lista flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem fékk flest atkvæði í síðustu sveitarstjórnarkosningum hefur ekki verið í meirihluta í bæjarstjórn.

Public deli
Public deli

Í ræðu sinni á fundinum lagði Margrét áherslu á mikilvægi þess að sjálfstæðismenn nái góðri kosningu í vor og tryggi sér þátttöku  í meirihluta í bæjarstjórn. „Áhersla okkar  er að auka tekjur sveitarfélagsins með öflugra atvinnulífi í stað þess að hækka skatta. Reykjanesbær er eitt af stærstu sveitarfélögum landsins með góða innviði og öflugt mannlíf.  Stórt og öflugt sveitarfélag eins og Reykjanesbær á bæði að vera samkeppnishæft fyrir atvinnuuppbyggingu, í skólamálum og líka gott samfélag með framúrskarandi þjónustu fyrir fólk á öllum aldri. Áherslan þarf að vera á að sveitarfélagið og ýmiskonar íþrótta-, menningar- og félagastarfssemi sé leiðandi á landsvísu, gangi í takt og eflist til þess að skapa góða umgjörð um öflugt mannlíf og skemmtilegan bæjarbrag“.

Margrét Sanders er rekstrarráðgjafi og einn af eigendum ráðgjafafyrirtækisins Strategíu. Margrét  var formaður Samtaka verslunar og þjónustu í 5 ár, framkvæmdastjóri og eigandi hjá Deloitte í 17 ár, stundaði kennslu í 15 ár svo eitthvað sé nefnt. Margrét hefur verið virk í starfi frjálsra félaga enda hefur hún stundað íþróttir, þjálfað og verið stjórnarmaður í ýmsum íþróttafélögum sem og öðrum félögum innan sveitarfélagsins og á landsvísu.