Fréttir

Margmenni við gosstöðvarnar og svæðinu hugsanlega lokað á morgun
Frá gosstöðvunum í Meradal. Ljósmynd: Ingibergur Þór Jónasson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 6. ágúst 2022 kl. 13:43

Margmenni við gosstöðvarnar og svæðinu hugsanlega lokað á morgun

Margmenni var við gosstöðvarnar í gær og fram á nótt en 4.666 fóru að gosstöðvunum í gær samkvæmt talningu Ferðamálastofa.

Gönguleið reynist mörgum erfið og sumir þurftu aðstoð við að komast til baka og einstaka ferðamenn urðu sárir í nótt og í gær.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Flestir fara upp leið A sem er sú leið sem viðbragðsaðilar mæla með og beina fólki inn á.

Mikilvægt að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nálægt gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.

Göngumenn klæði sig eftir veðri, nesti sig og ekki gleyma að hafa farsíma fullhlaðna. Muna eftir höfuðljósum þegar fer að skyggja.

Bílum skal lagt á merktum stæðum en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar. Frá og með deginum í dag mun lögregla sekta þá sem leggja ólöglega við Suðurstrandarveg. Merkingar eru til staðar og fara ekki fram hjá ökumönnum!

Virkjuð hefur verið gasdreifingarspá sem má sjá með því að smellla hér.

Þeir gangi að gosstöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nestaðir. Fylgist með vindátt og fréttaflutningi. Sjá jafnframt upplýsingar á safetravel.isalmannavarnir.is og vedur.is/. Þá má benda á helstu fjölmiðla sem hafa verið með mjög upplýsandi og góðan fréttaflutning af gosinu.

Veðurspá fyrir sunnudag er slæm og ekki ólíklegt að komi til lokana inn á svæðið. Það skýrist í dag og verður tilkynnt tímanlega.