Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Loftrýmisgæslu að ljúka
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 30. október 2020 kl. 06:48

Loftrýmisgæslu að ljúka

Fjöldi kafbátaleitarflugvéla á Keflavíkurflugvelli

Um 250 liðsmenn bandaríska flughersins hafa annast loftrýmisgæslu við Ísland síðustu vikur. Flugsveitin hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og gert er ráð fyrir að loftrýmisgæslunni ljúki fyrir lok mánaðarins.

Flugsveitin kom hingað til lands frá Bretlandi með fjórtán F-15 orrustuþotur. Auk liðsmanna flughersins þá taka starfsmenn frá stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og eistneska flughernum þátt í verkefninu.

Það er ekki bara fjölmenn flugsveit með orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli því þar eru einnig staðsettar sex kafbátaleitarvélar af gerðinni Boeing Poseidon P-8. Nú standa yfir áhafnaskipti bandaríska sjóhersins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem skýrir þennan fjölda kafbátaeftirlitsflugvéla á svæðinu en bandaríski sjóherinn sinnir kafbátaeftirliti frá Keflavíkurflugvelli. Einnig sinnir kanadíski flugherinn kafbátaeftirliti og er með flugsveit hér á landi. Vegna sóttvarnaráðstafana taka áhafnarskiptin lengri tíma en vanalega. Strangari ráðstafanir hafa verið gerðar vegna komu erlends liðsafla en almennt hefur gilt um ferðamenn sem koma til landsins. Þeir liðsmenn sem lokið hafa sóttkví, skimunum og uppfyllt reglur viðkomandi ríkja, sem oftar en ekki ganga lengra en íslensku reglurnar, hafa heimild til að ferðast utan öryggissvæðis.

Bygging þvottastöðvar fyrir kafbátaleitarflugvélar stendur yfir á Keflavíkurflugvelli og gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin næsta vor.

Sex Boeing Poseidon P-8 kafbátaleitarflugvélar á Keflavíkurflugvelli á mánudagskvöld. VF-myndir/Hilmar Bragi.