Nettó
Nettó

Fréttir

Leikur ekki fyrir Íslands hönd á meðan dæmdir nauðgarar gera það
Embla Kristínardóttir vill að íþróttafélög landsins taki skýrari afstöðu með þolendum kynferðisbrota. VF-mynd: Sólborg
Föstudagur 19. janúar 2018 kl. 17:06

Leikur ekki fyrir Íslands hönd á meðan dæmdir nauðgarar gera það

„Svo lengi sem KKÍ styður ekki 100% við þolendur kynferðisbrota hef ég ekki áhuga á að spila fyrir Íslands hönd,“ segir körfuknattleikskonan Embla Kristínardóttir í samtali við Víkurfréttir, en hún kom fram í viðtali hjá RÚV í gær sem vakið hefur gríðarlega athygli.

Embla, sem leikur með meistaraflokki Keflavíkur í körfuknattleik, segir í viðtalinu frá því að sér hafi verið nauðgað, aðeins þrettán ára gömul af íþróttamanni sem í kjölfarið, eftir að hafa verið fundinn sekur en fengið skilorðsbundinn dóm, hafi haldið áfram að spila fyrir Íslands hönd í sinni íþrótt. Embla þurfti þar af leiðandi að mæta gerandanum, sem búsettur var á höfuðborgarsvæðinu og æfði með íþróttafélagi þar, til dæmis í Laugardalshöllinni þar sem hann æfði og hún keppti í úrslitaleikjum.


Embla í úrslitaleik Maltbikarsins.

Embla segir það ólíðandi að dæmdir kynferðisbrotamenn fái að keppa fyrir Íslands hönd þar sem þeir eru í sviðsljósinu sem fyrirmyndir ungs fólks. Þar nefnir hún Sigurð Þorvaldsson, sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun árið 2010, en hann hefur keppt með íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik eftir brot sitt.

„Þegar ég var sextán ára gömul í minni fyrstu landsliðsferð var hann í karlaliðinu og gisti í næsta herbergi við mig á hótelinu. Engum fannst það athugavert að senda dæmdan mann út fyrir hönd Íslands.“

Embla ræddi afskiptaleysi grunnskóla síns, sem hún var í á þeim tíma, einnig í viðtalinu, en hún segist ekki hafa fengið neinn stuðning frá skólastjórnendum vegna málsins. Hún hafi verið kölluð ljótum nöfnum af bekkjarsystkinum sínum, yfirhafnirnar hennar verið teknar og faldar og ljót skilaboð skilin eftir í skápnum hennar.

„Skólinn hefði átt að grípa inn í þetta. Ég mætti bara stundum í skólann, fór ekki í próf né skólaferðalög. Mér þótti gott að nálgast einn tiltekinn kennara, en umsjónarkennarinn minn og fleiri sáu mig oft gráta og kvarta en ekkert var gert,“ segir Embla, en hún stundaði nám við Holtaskóla í Reykjanesbæ.

Viðbrögðin við viðtalinu segir Embla hafa verið frábær, en hún vilji sjá íþróttafélög landsins taka skýrari afstöðu með þolendum kynferðisbrota.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs