Leggja til að aðgangur að Duus safnahúsum verði ókeypis
Hagsmunaaðilar í Duus safnahúsum í Reykjanesbæ leggja til að hætt verði að taka aðgangseyri þannig að gestum fjölgi.
Eva Kristín Dal forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar mætti á fund Menningar- og þjónusturáðs og kynnti tillögu hagsmunaaðila í Duus safnahúsum þ.e. menningarfulltrúa, Listasafns Reykjanesbæjar og Byggðasafns Reykjanesbæjar þar sem lagt er til að frá og með 1. janúar 2026 verði aðgangseyrir felldur niður í Duus safnahúsum og aðgangur að þeim hafður gjaldfrjáls.
„Markmiðið er að gera safnahúsin aðgengilegri og fjölga gestum. Að fella niður aðgangseyri eykur aðgengi íbúa að húsunum og stuðlar að jafnræði og inngildingu allra hópa. Ýmis rök eru fyrir þessari breytingu sem væri íbúum sveitarfélagsins til hagsbóta,“ segir í fundargerð ráðsins sem tók vel í erindið og vísar því áfram í fjárhagsáætlanagerð 2026.