Suðurnesjabær fagnar afmæli með nýrri þjónustugátt og uppfærðri heimasíðu
Suðurnesjabær fagnaði sjö ára afmæli sínu þann 10. júní síðastliðinn og markaði tímamót með því að opna nýja þjónustugátt og kynna uppfært og nútímalegt útlit heimasíðu sveitarfélagsins.
Nýja þjónustugáttin er stórt skref í átt að rafrænni þjónustu og einfaldari samskiptum við íbúa. Þar geta íbúar nú auðkennt sig með rafrænum skilríkjum og sótt um fjölbreytta þjónustu á einfaldan, öruggan og gagnsæjan hátt.
„Þetta er liður í áframhaldandi þróun á stafrænum lausnum sveitarfélagsins. Við viljum einfalda samskipti íbúa og Suðurnesjabæjar, auka þjónustustigið og mæta breyttum væntingum til opinberrar þjónustu,“ segir Magnús Stefánsson bæjarstjóri.
Með þessari breytingu er stefnt að auknu aðgengi að þjónustu, styttri afgreiðslutíma og bættri upplifun íbúa þegar kemur að erindum við sveitarfélagið.
Íbúum er bent á að kynna sér nýju þjónustugáttina á vef Suðurnesjabæjar og skoða þá þjónustu sem þar er í boði.