Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Lausir hundar plága í Sandgerði
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 4. ágúst 2020 kl. 13:00

Lausir hundar plága í Sandgerði

Hundur réðist á lamb í Sandgerði. Málið kært til lögreglu. Óvíst um hvort hundurinn fái að lifa.

„Það var fyrir tilviljun að tveir vinir mínir hér í nágrenninu sáu þegar hundurinn réðist á lambið. Þeir héldu fyrst að tvö lömb væru að leika sér en tóku upp kíki og sáu hvað var í gangi og fóru á staðinn og náðu að stöðva hundinn. Hann var búinn að særa lambið að aftan og bíta af rófunni,“ segir Jón Sigurðsson, frístundabóndi í Sandgerði um óskemmtilegt atvik þegar laus hundur réðist á lamb í hans eigu í vikunni.

Jón og félagi hans eru með sex kindur og fimmtán lömb á túninu að Bæjarskerjum í Sandgerði og hafa stundað frístundabúskap í all nokkur ár. Krakkar úr Sandgerði voru með hundinn með sér á gangi á túninu án þess að vera með hann í ól þegar hann réðist á lambið. Jón segir að það sé ekki útilokað að hundurinn hafi verið búinn að ráðast á fleiri lömb þegar félagar hans sáu hvað gerðist. Þeir komu strax á staðinn og stöðvuðu hundinn. Þeir náðu að festa það á myndband þegar hundurinn réðist aftur á lambið, líklega í anað sinn. Lögreglan var kölluð á staðinn sem fékk myndbandið og tók skýrslu. Jón gaf út kæru á eiganda hundsins með bótakröfu og ljóst að eigandi hundsins situr uppi með kostnað vegna málsins. Það fer einnig inn á borð Matvælastofnunar sem tekur ákvörðun um hvort hundurinn fær að lifa eða ekki. Ragnar Guðleifsson, meindýraeyðir á Suðurnesjum segir að það sé litið alvarlegum augum þegar hundar ráðist á önnur dýr eða búfénað. Þá séu þeir orðnir dýrbýtar.

Public deli
Public deli

„Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem svona gerist hérna. Það er mikið af því að hundar gangi lausir í Sandgerði og dæmi eru um nokkur atvik, sum mjög ljót, þar sem hundur hefur ráðist á lömb. Þetta er að verða alger plága og það er alveg ljóst að komi þetta fyrir aftur verður ekki gefinn neinn griður ef við grípum hund aftur sem fer í féð,“ segir Jón.

Víkurfréttir hittu Jón sem fór með lambið til dýralæknis sem gerði að sárum þess. Jón fór svo með lambið aftur á Bæjarsker þar sem urðu fagnaðarfundir ef svo má segja, eins og sjá má á myndunum og myndbandinu.

Hér má sjá áverkana á lambinu. Rófan er aðeins hálf eftir árásina.

Jón með lambið sem hundurinn réðist á.

Ærin var ánægð að fá lambið sitt aftur og þakkaði Jóni fyrir það.