Fréttir

Hlakkar til að taka aftur á móti ferðamönnum Hjá Höllu í flugstöðinni
Sigurpáll Jóhannsson og Halla María Svansdóttir við pizzaofninn í flugstöðinni.
Laugardagur 5. júní 2021 kl. 07:07

Hlakkar til að taka aftur á móti ferðamönnum Hjá Höllu í flugstöðinni

Halla María Svansdóttir veitingakona úr Grindavík, sem á og rekur hinn vinsæla veitingastað Hjá Höllu, gaf sér góðan tíma til að reikna þá formúlu sem þurfti til að láta veitingastað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ganga. Þá var ferðaþjónustan á fleygiferð, WOW air til staðar, MAX-þotur Icelandair á leiðinni í loftið og flugstöðin full af skiptifarþegum alla daga. Flugstöðin iðaði af mannlífi og hvað gæti klikkað? Jú, WOW féll, MAX-þoturnar voru kyrrsettar, áhafnarmeðlimir Icelandair fluttu yfir í annað húsnæði og svo skall á heimsfaraldur kórónuveiru.

– Hvernig fer maður að þegar þessi staða kemur upp?

„Þetta er ekki búið að vera auðvelt. Það hefur verið mikil vinna á bakvið þetta þó svo það hafi verið minna að gera á tímabili, þá er vinna að halda þessu öllu gangandi. Ríkisstjórnin hefur hjálpað til með að við gátum látið okkar fólk á hlutabótaleið og það hjálpaði gríðarlega mikið til. Þá hefur Isavia líka staðið við bakið á okkur með þeim hætti að leiga er ekki rukkuð á meðan á þessu stendur. Það hefur bjargað þessu.“

– Þið standið uppi með stofnkostnað við að innrétta veitingastað hér í flugstöðinni. Það hefur kostað tugi milljóna?

„Já. Það var líka eitt af því sem var í útreikningunum hjá okkur, að láta framkvæmdina borga sig á ákveðnum tíma. Nú er liðið eitt og hálft ár síðan við lokuðum í flugstöðinni og því er ekkert verið að greiða af því sem við gerðum hérna.“

– Þið vonist til að öll él birti upp um síðir.

„Já, en það er ekkert alveg á næstunni sem það er. Við opnum örugglega ekki fyrr en í haust og jafnvel þegar nær dregur jólum.“

— Þið eruð lítið Suðurnesjafyrirtæki og þetta hefur verið stór ákvörðun að ráðast í þessa framkvæmd?

„Þetta var mjög stór ákvörðun og erfið ákvörðun. Þetta var líka áhættusöm ákvörðun en við ákváðum að láta slag standa.“

– Og þið hafið lifað þetta af.

„Við erum alla vega ennþá lifandi. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Það eru búin að vera mörg áföll og við vitum ekki hvort það verði annað áfall, hvort það komi eitthvað annað.“

— Eruð þið í góðu samtali við Isavia um stöðuna?

„Já, það eru reglulegar upplýsingar sem við fáum frá þeim og tölur um komu- og brottfararfarþega.“

Þó svo farþegum sé farið að fjölga umtalsvert, þá telur Halla ekki ennþá ástæðu til að opna strax. Á meðan tekur hún á móti gestum á veitingastað sinn í Grindavík. Hann hefur verið vel sóttur af „gosgestum“ Grindavíkur síðustu vikur. Ferðamannastraumurinn til Íslands hefur allur viðkomu í Grindavík enda gosið í Fagradalsfjalli orðið heimsþekkt og þangað vilja allir koma. Halla segir að hún fái marga gosferðalanga í mat til sín á staðinn Hjá Höllu í Grindavík og það sé líka ánægjulegt að hún sé að sjá sömu ferðamennina koma oft. Þeir staldri greinilega lengi við og líki við það sem boðið er uppá á staðnum í Grindavík. Það sé líka tilhlökkun að opna aftur í flugstöðinni. Þar er pizzasofn og pizzurnar séu vinsælar. Örugglega muni kraftmiklar gos-pizzur rata á matseðilinn þegar veitingastaðurinn í suðurbyggingu flugstöðvarinnar opnar aftur síðar á árinu.

Forsetahjónin þáðu veitingar hjá Höllu veitingakonu í nýlegri heimsókn þeirra í flugstöðina þar sem þau kynntu sér starfsemi lögreglu og landamæravarða.