Flugger
Flugger

Fréttir

Hjól atvinnulífsins farin að snúast í Grindavík
Öll börn Sigga vinna hjá honum þessa dagana.
Þriðjudagur 5. desember 2023 kl. 15:58

Hjól atvinnulífsins farin að snúast í Grindavík

Blaðamaður Víkurfrétta kíkti í Grindavík í morgun og tók hús á nokkrum fyrirtækjum. Byrjað var í Olískaffinu, þaðan farið í bakaríið Hérastubb, því næst kíkt í vinnslu Þorbjarnar og að lokum var hádegismatur snæddur á Sjómannastofunni Vör.

Það var fámennt en góðmennt í Olís í morgun. „Venjulega er þétt setið við þetta borð þegar ég opna á morgnana en sú var ekki raunin í morgun. Það er líklega teljandi á fingrum annarar handar, hversu mörg viðskipti áttu sér stað í dag en ég náði að taka til í bókhaldinu og sendi út reikninga fyrir hærri upphæðir“ segir Jón Gauti Dagbjartsson, stöðvarstjóri Olís í Grindavík.

Siggi bakari var nokkuð brattur þrátt fyrir talsvert færri heimsóknir í bakaríið þessa dagana. „Ég veit ekki hvort eigi að líta á þetta sem samfélagsþjónustu en við erum alla vega eitthvað að reyna. Flestar pantanirnar eru í Reykjavík, fólk er á fullu að baka laufabrauðin þessa dagana en ég þykist vita að salan aukist hjá Grindvíkingum þegar starfsemi fyrirtækjanna eykst,“ sagði Siggi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þorbjörn var á fullu að vinna afla af Valdimar sem hafði landað 83 tonnum af þorski í gær á Siglufirði. Jóhann Vignir Gunnarsson var ánægður með að vinnslan var komin af stað eftir rafmagnsvandamál í gærmorgun. „Ég fékk símhringingu á laugardaginn frá Slökkviliði Grindavíkur, þá leit vinnslan víst út eins og danskt diskótek, það blikkuðu öll ljós svo þeim var slegið út og þegar við ætluðum að hefja vinnslu í gærmorgun, komu engin ljós. Sem betur fer gátum við byrjað vinnslu um níuleytið en við erum að vinna á tæplega helmingsafköstum. Venjulega eru um 70 manns að vinna hjá okkur en við erum tæplega 30 í dag,“ sagði Jóhann.

Að lokum var kíkt í hádegismat á Sjómannastofuna Vör í Grindavík. Vilhjálmur Lárusson ræður ríkjum þar. „Þetta er að aukast hægt og bítandi myndi ég segja, síðasti föstudagur var óvenjugóður því oftast er færra í mat hjá mér á föstudögum þegar fólk er hætt á hádegi. Það er gaman að sjá líf í bænum á ný, ég bauð upp á pizzu í dag og verð með steiktan fisk í raspi, lasagne og kakósúpu,“ sagði Villi kokkur.

Villi var hress að vanda.
83 tonn af þorski runnu í gegnum vinnsluna í Þorbirni í dag.
Það var fámennt en góðmennt í Olískaffinu í morgun.