bygg 1170
bygg 1170

Fréttir

Hátíðarfundur og afmæliskaffi í Stapa á 25 ára afmæli Reykjanesbæjar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 11. júní 2019 kl. 13:37

Hátíðarfundur og afmæliskaffi í Stapa á 25 ára afmæli Reykjanesbæjar

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar heldur sérstakan hátíðarfund í Stapa þriðjudaginn 11. júní nk. kl. 17:00. Þá verður því fagnað að 25 ár eru liðin frá stofnun Reykjanesbæjar og fyrsta bæjarstjórn nýs sveitarfélags tók til starfa. Bæjarbúum er boðið á fundinn og til kaffisamsætis í Stapa að honum loknum.

Blásið var til sóknar

Á dagskrá hátíðarfundarins verður m.a. fyrri umræða um stefnumótun Reykjanesbæjar til ársins 2030 sem unnið hefur verið að í vetur sem og nýtt stjórnskipulag Reykjanesbæjar. Bærinn stendur á tímamótum. Góður árangur hefur náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu sem unnið hefur verið að frá árinu 2014. Þá var skuldaviðmið Reykjanesbæjar um 250%. Í samstarfi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur verið unnið mikið starf og sögulegur árangur náðst. Við afgreiðslu ársreiknings 2018 nú í vor var ljóst að sveitarfélagið hefur þegar náð undir 150% skuldaviðmið og útlit er fyrir bjartari tímum framundan.

Nafnamálið var hitamál

Þegar litið er aldarfjórðung aftur í tímann má sjá að ekki gekk allt snurðulaust fyrir sig. Eftir að íbúar í Keflavík, Njarðvík og Höfnum höfðu samþykkt sameiningu í kosningum 5. febrúar 1994 hófst nafnamálið mikla sem varð mikið hitamál. Margir vildu fá nafnið Keflavík á sameinað sveitarfélag og enn aðrir Suðurnesjabær, sem sveitarfélagið var kallað eftir fyrstu nafnakosningu 16. apríl 1994.

Kosningar til sveitarstjórna fóru fram 28. maí 1994 og eins og kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum tók ný sveitarstjórn við völdum 14 dögum eftir kosningar eða þann 11. júní 1994. Bæjarstjórnin hét fyrst um sinn bæjarstjórn Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, enda bæjarfélagið enn nafnlaust. Fyrsti fundur nýrrar sveitarstjórnar fór fram 21. júní 1994 í fundarsal bæjarstjórnar á Tjarnargötu 12.  Á þeim fundi var Drífa Sigfúsdóttir kjörin fyrsti forseti bæjarstjórnar nýs sameinaðs sveitarfélags og Steindór heitinn Sigurðsson 1. varaforseti. Þá var Jónína Sanders kjörin fyrsti formaður bæjarráðs og Ellert Eiríksson ráðinn bæjarstjóri.

Eftir mikinn darraðardans og deilur var kosið um nýtt nafn á sveitarfélagið samhliða alþingiskosningum árið 1995. Valkostirnir voru tveir og hlaut Reykjanesbær 55% atkvæða. Þegar bæjarstjórn tók nafnamálið til afgreiðslu á fundi sínum þann 16. ágúst 1995 voru hávær mótmæli frá íbúum á og utan við fundarsal bæjarstjórnar. Einn frægasti Keflavíkingur sögunnar, tónlistarmaðurinn Rúnar Júlíusson, hótaði að flytja úr bænum í kjölfarið. Hann bar þó of mikla ást til bæjarfélagsins til að láta af því verða en hóf að einbeita sér að næsta baráttumáli, tvöföldun Reykjanesbrautar. Því verkefni er enn ólokið eins og alþjóð veit.

Þrír fyrrum bæjarfulltrúar úr fyrstu bæjarstjórn Reykjanesbæjar þau Drífa Sigfúsdóttir, Jóhann Geirdal og Jónína Sanders, munu minnast upphafsins í kaffisamsætinu í Stapa auk þess sem nemendur úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar munu flytja tónlist. Þá verða myndir frá stefnumótunarvinnu og úr 25 ára sögu Reykjanesbæjar sýndar á stórum skjá.