Flugger
Flugger

Fréttir

Gagnrýnir lokanir á leikskólum Reykjanesbæjar
Föstudagur 31. mars 2023 kl. 06:07

Gagnrýnir lokanir á leikskólum Reykjanesbæjar

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, vekur athygli á því í bókun að það eru ekki allir foreldrar að vinna á vinnustöðum sem geta boðið upp á sveigjanleika í tengslum við lokun leikskóla í Reykjanesbæ. Margrét bókaði við fundargerð fræðsluráðs þar sem möguleg vetrarlokun leikskóla var til umfjöllunar.

Í bókuninn segir: „Á fundi fræðsluráðs er lagt fram minnisblað fyrir hönd starfsmanna leikskóla Reykjanesbæjar. Þar er farið fram á að leikskólar fái að loka vegna vetrarfría líkt og önnur skólastig, þ.e. grunnskólar og fjölbrautaskóli. Leikskólar eru fyrst og fremst þjónusta sem bæjarfélagið býður upp á. Á milli jóla og nýárs var leikskólum bæjarins lokað og sú þjónusta sem bærinn hefur boðið barnafjölskyldum upp á því ekki í boði á þeim tíma. Vekja má athygli á því að það eru ekki allir foreldrar að vinna á vinnustöðum sem geta boðið upp á þann sveigjanleika að þeim sé bara lokað á þessum tíma og þurftu margir foreldrar að nota orlofsdaga sína þá fjóra daga. Allt í boði meirihluta bæjarstjórnar. Einnig hefur verið ákveðið að öllum leikskólum Reykjanesbæjar skuli lokað á sama tíma, þ.e. frá 5. júlí til 9. ágúst.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Nú er farið fram á lokun til vetrarfrís. Skerðir þetta sveigjanleika foreldra og þeirra vinnuveitenda og má segja að bæjaryfirvöld stefni á að taka ákvarðanir fyrir bæði foreldra og vinnuveitendur hér í bæ um hvenær sá hópur fólks ráðstafi sínu orlofi. Sumarorlof leikskólanna telur 24 daga, lokun á milli jóla og nýárs tvo til fjóra daga og svo nú er farið fram á vetrarfrí tvo daga sem setur heildartölu ráðstafaðra daga 28–30 daga að undanskildum starfsdögum sem telja sex daga. Hvernig sér fólk fyrir sér að foreldrar komi þessu fyrir í okkar fjölskylduvæna samfélagi?
Er þetta ekki bara komið út í það að foreldrar þurfi að vera í fríi á sitthvorum tímanum og einstætt foreldri þarf að taka launalaust frí fyrir því sem upp á vantar?
Er þetta það sem meirihlutinn Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Bein leið ætla að bjóða fjölskyldum og börnum bæjarins upp á?“