Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Einn risastór misskilningur við leit að Heaven
Löggan brunaði á bláum í útkallið enda talið að málið væri alvarlegt.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 11. júlí 2019 kl. 12:00

Einn risastór misskilningur við leit að Heaven

Í vikunni fékk Lögreglan á Suðurnesjum tilkynningu um það sem hljómaði eins og alvarlegt útkall. Tilkynnandi heyrði hróp og köll koma frá móa skammt frá þar sem hann bjó. Heyrði hann konu ítrekað hrópa „Help... Help“. Þá sá hann tvær manneskjur í fjarska og fannst tilkynnanda eins og um barsmíðar væri að ræða og var önnur manneskjan að hlaupa undan hinni. Allt tiltækt lögreglulið var sent á vettvang á forgangi.

Lögreglumenn komu á vettvang skömmu síðar og hittu á tilkynnanda sem benti þeim á tvær manneskjur á hlaupum töluvert frá. Lögreglumenn tóku á rás og hlupu fólkið uppi. Er að þeim var komið sáu lögreglumenn að allt virtist vera í himna lagi. Um tvær konur var að ræða. Önnur sagði strax: „Þetta er komið, hún er fundin“ og brosti sínu breiðsta.

Public deli
Public deli

Lögreglumenn skildu ekki í fyrstu hvað væri í gangi en eftir stutta frásögn kom það í ljós að hundurinn Heaven hafði verið týnd. Höfðu þær stöllur verið að hrópa „Heaven... Heaven“ í tilraunum sínum til þess að ná hundinum sínum aftur.

Þær þökkuðu fyrir veitta aðstoð og skjót viðbrögð lögreglu við leit að hundinum, þótt engin tilkynning um týndan hund hafði borist. Fannst þeim samt einkennilegt að lögreglan kæmi á bláum ljósum í þetta verkefni.

Lögreglumennirnir fengu ágætis æfingu í utanvegaspretthlaupi og afar skítuga skó, en voru fegnir að ekkert slæmt hafði hent.