Björgunarskip í Grindavík í verkefni annan daginn í röð
Í morgun barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar aðstoðarbeiðni frá litlum fiskibát suð-austur af Grindavík, sem naut ekki lengur vélarafls. Í kjölfarið var áhöfnin á Oddi V. Gíslasyni, björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Grindavík, boðuð út.
Björgunarskipið lagði úr höfn rétt fyrir átta í morgun og hélt áleiðis að bátnum. Veður var að mestu hagstætt, en þó gekk á með miklum rigningarhryðjum og rak bátinn rólega að landi. Ekki var talin hætta á ferðum, og skipverji var klár í að varpa akkeri ef þörf yrði á. Báturinn var staddur rúmlega 4 sjómílur undan landi, suð-suðvestur af Herdísarvík.
Oddur V kom svo að bátnum rétt um kl. 9 í morgun og áhöfnin kastaði línu yfir í bátinn svo hægt væri að koma taug á milli. Það gekk vel og um tuttugu mínútum síðar var dráttur áleiðis til Grindavíkur hafinn. Oddur V kom svo til Grindavíkur með fiskibátinn í togi rétt fyrir hádegið í dag.
Þetta var annan daginn í röð sem áhöfn Odds V er kölluð út en allt árið í fyrra var aðeins eitt útkall á björgunarskip í Grindavík.
Meðfylgjandi eru ljósmyndir frá aðgerðum í morgun.