Fréttir

Bati í rekstri Sveitarfélagsins Voga
Mynd: vogar.is
Miðvikudagur 17. maí 2023 kl. 16:39

Bati í rekstri Sveitarfélagsins Voga

Þrátt fyrir almennt versnandi ytri skilyrði í íslensku efnahagslífi og neikvæð áhrif verðbólgu á afkomu endurspeglar ársreikningur 2022 bata í rekstri Sveitarfélagsins Voga. Á árinu 2022 var afkoma sveitarfélagsins neikvæð um 109 m. kr. borið saman við 228. m.kr. neikvæða afkomu á árinu 2021.

Jákvæð þróun sem mikilvægt er að fylgja vel eftir

Ársreikningar Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2022 voru lagðir fram til síðari umræðu í bæjarstjórn í dag. Bæjarstjóri segir reikningana endurspegla þróun í rétta átt en verkefninu sé þó hvergi nærri lokið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

“Mikil uppbygging íbúarhúsnæðis á sér nú stað í Vogum og sveitarfélagið þarf að vera í stakk búið til að mæta þeirri auknu þjónustuþörf sem slíkri uppbyggingu óhjákvæmilega fylgir. Með auknum íbúafjölda aukast að sjálfsögðu rekstrartekjur sveitarfélagsins og með stækkandi bæ má reikna með því að reksturinn verði sömuleiðis skilvirkari. Uppbygging innviða þarf hinsvegar að haldast í hendur við íbúaþróunina og það er stóra verkefnið framundan. Til þess að sveitarfélagið geti staðið undir því mikilvæga verkefni og veitt góða þjónustu þarf reksturinn að vera traustur og skila nægjanlegri framlegð. Við þurfum því að halda áfram á þessari jákvæðu vegferð og treysta enn frekar rekstrargrundvöll sveitarfélagsins, auka skilvirkni í rekstri allra málaflokka, gæta aðhalds og vinna að því að skapa aðstæður fyrir öfluga atvinnuuppbyggingu á svæðinu,“ segir Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri.

Bætt framlegð og skuldaviðmið lækkar

Rekstrartekjur samstæðu jukust um 10,7% frá fyrra ári en rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði jukust talsvert minna eða um 3,2%. Framlegð, þ.e. er reglulegar tekjur að frádregnum rekstrargjöldum, án afskrifta og fjármagnsliða, batnaði því að sama skapi talsvert milli ára og nam um 78 m.kr. á árinu 2022 eða sem nemur 4,6% af reglulegum tekjum. Aukin verðbólga setti hins vegar talsverðan svip á afkomuna og voru fjármagnsliðir neikvæðir um 123 m.kr. á árinu eða um 51 m.kr. umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri um 70. m.kr. á árinu en áætlun sveitarfélagsins gerði ráð fyrir að veltufé frá rekstri yrði jákvætt um 19.m.kr. Til samanburðar var veltufé neikvætt um 46 m.kr. á árinu 2021.

Skuldaviðmið samstæðunnar í árslok nam 83% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en var 87,8% árið 2021. Skuldaviðmið í A-hluta var 83% í árslok en var 85,5% árið áður. Veltufjárhlutfallið var 1,32 í árslok 2022 en var 0,6 árið áður.