Fréttir

Ásmundi boðin sæti hjá öðrum framboðum
Fimmtudagur 24. október 2024 kl. 13:51

Ásmundi boðin sæti hjá öðrum framboðum

„Ég er drullusvekktur,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður, eftir að honum var hafnað á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Ásmundur sóttist eftir þriðja sæti á lista flokksins, eins og Birgir Þórarinsson.

„Við klúðruðum þessu sjálfir,“ segir Ásmundur og vísar til sjálfstæðismanna á Suðurnesjum og baráttu þeirra fyrir sætum á framboðslistanum. Suðurnesjamenn eiga nú Vilhjálm Árnason í öðru sæti og næstur er Guðbergur Reynisson í sjötta sæti. „Það var ekki hlustað á varnaðarorð okkar,“ segir hann.

Eftir að ljóst var að Ásmundi hafði verið hafnað af Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi hefur verið leitað til hans frá öðrum framboðum. Heimildir Víkurfrétta herma að bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafi leitað til Ásmundar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Mér var boðið öruggt sæti og ég þakka fyrir það. Ég sé mér hins vegar ekki fært að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn laskaðan á þessum tímamótum,“ segir Ásmundur. Hann segist ekki vera sestur í helgan stein. Hann sé fullur af starfsorku og ætli sér út á vinnumarkaðinn eftir þingsetuna.

Suðurnesjamönnum fækkar á þingi

Ljóst er að Suðurnesjamönnum fækkar á þingi. Oddný Harðardóttir hefur ákveðið að hætta hjá Samfylkingu. Tvö efstu sætin þar nú eru ekki skipuð Suðurnesjamönnum. Búið er að fastsetja fyrstu tvö sætin hjá Framsókn án Suðurnesjafólks en Jóhann Friðrik Friðriksson var áður í öðru sæti þar. Nokkuð öruggt er talið að Guðbrandur Einarsson skipi efsta sæti Viðreisnar í kjördæminu og sé því eini Suðurnesjamaðurinn sem skipar oddvitasæti flokks í kjördæminu. Þá hefur Hólmfríður Árnadóttir verið orðuð við oddvitasæti hjá Vinstri grænum en VG náði ekki inn manni síðast og er langt frá því núna miðað við skoðanakannanir.