Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Fréttir

Áhugaverð verkefni á námskeiði MSS og Vinnumálastofnunar
Sunnudagur 18. apríl 2021 kl. 06:13

Áhugaverð verkefni á námskeiði MSS og Vinnumálastofnunar

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, MSS, útskrifaði í síðustu viku hópa úr verkefninu „Færni í ferðaþjónustu“. Hóparnir hafa í námi sínu útbúið verkfæri sem bjóða upp á ýmislegt sem nýtist samfélaginu og vissulega ferðaþjónustunni. Verkefnin sem unnið var að eru leikjagarður á Ásbrú, nýtt App, menningarmiðstöð og annað skemmtilegt en námskeiðið er hluti af samstarfsverkefni MSS og Vinnumálastofnunar.

Pétur Ragnar Pétursson leiðbeindi hópunum í verkefnum sínum. „Það var áskorun fyrir mig sem leiðbeinanda að vinna með hópi fólks sem hefur verið í þeirri slæmu stöðu að hafa verið án atvinnu í langan tíma. Ég náði að kveikja áhuga hjá þeim til að taka þátt í að skapa. Það tókst ágætlega með þessum hópum,“ sagði Pétur í samtali við Víkurfréttir.

Sólning
Sólning

Tropical Jungle á Suðurnesjum

Fyrsta verkefnið sem kynnt var eftir námskeiðið var leikjagarður, eða „Tropical Jungle“ á Suðurnesjum.

Leiðarljós verkefnisins er að koma á fót „leiklandi“ fyrir börn í rúmgóðu og góðu húsnæði á Suðurnesjum. Meginmarkmiðið er að koma á fót aðstöðu í bæjarfélaginu til að efla félagsþroska og hreyfihæfni barna á aldrinum tveggja til tíu ára. Að börn geti hist með eða án foreldra, í afmælum, á námskeiðum eða vistun (pössun) í stuttan tíma á öruggu svæði þar sem þau njóta sín til fulls.

Í kynningu á verkefninu segir að markmiðið sé að að bjóða foreldrum upp á aðstöðu til að halda afmæli. Að bjóða foreldrum að sækja afþreyingu fyrir börn sín, t.d. með skammtímavistun. Að viðskiptavinir geti notið þess að fá sér veitingar, t.d. kaffi og ís á staðnum. Að utanaðkomandi aðilar geti sett upp skemmtileg námskeið, t.d. í samstarfi við Leikfélag Keflavíkur, fyrir börn á aldrinum tveggja til tíu ára. Að bæjarfélög á svæðinu geti nýtt sér „leikland“ til sérhæfðra námskeiða.

Að foreldrar geti komið með börn sín á „innileikvöll“ og leyft þeim að leika sér með öðrum börnum á svæðinu í skamman tíma í senn. Að ná því markmiði að tíu börn heimsæktu staðinn daglega fyrsta rekstrarmánuðinn og síðast en ekki síst, að hagnaður verði af starfseminni.

2do4u

Annað verkefnið var 2do4u sem er vefur og app. Leiðarljós verkefnisins er að fylla upp í þá þörf sem er á markaði fyrir þá sem eru að leita sér að aðilum til að inna af hendi smærri sem stærri verk. Að gera verksölum kleift að bjóða fram vinnu sína á sameiginlegu vefsvæði með það fyrir augum að ná sér í viðskiptavini. Að halda úti vefsvæði þar sem báðir aðilar geta haft hag af þjónustunni á vefnum.

Markmiðið er að koma upp miðlægum grunni verksala sem gefur þeim færi á að kynna sig og sína þjónustu og að viðskiptavinur geti pantað þjónustu þeirra í gegnum vefinn. Að koma upp vef sem gefur netnotendum tækifæri á að leita, skoða og panta vinnu hjá verksölum á vefnum. Að fylla upp í þá þörf á markaði sem meðal annars er verið að reyna að fylla upp í á Facebook með síðum eins og „Vinna með stuttum fyrirvara“ – með vef þar sem viðskiptavinir geta sagt skoðun sína (ummæli) um keypta þjónustu. Að gera kröfur um getu verksala til að uppfylla þarfir viðskiptavina. Að farið sé í gegnum gæðakerfi til að tryggja að verksali geti staðið við auglýsta þjónustu. Að verksalar geti greint ítarlega frá því hvað þeir eru að selja. Að verksalar geti keypt áskrift að veru sinni á vefnum og komi þannig oftar fram í leit viðskiptavina. Að sem flestir geti nýtt sér vinnu fagmanna sem bjóða vinnu sína á vefnum. Að vefurinn skapi eigendum atvinnu og leiði til nýsköpunar á markaði. Að bjóða verksölum að kaupa auglýsingar á vefnum. Að bjóða fyrirtækjum að kaupa kynningar á vörum og þjónustu á vefnum. Að verksalar geti boðið hvaða þjónustu sem er, svo fremi sem hún sé lögleg, og engin takmörk eru á fjölda þjónustuflokka eða verksala og síðast en ekki síst að vefurinn sé rekinn með hagnaði.

Félags- og menningarmiðstöð Suðurnesja

Þriðja verkefnið á námskeiðinu var unnið af þeim þátttakendum sem ekki hafa íslensku sem móðurmál. Það verkefni snéri að stofnun félags- og menningarmiðstöðvar.

Meginmarkmið verkefnisins er að koma á fót „samfélagsmiðstöð,“ á alþjóðlegum grunni þar sem hver einstaklingur er samþykktur og velkominn með tilliti til kynþáttar, þjóðernis, kyns eða stjórnmálaskoðana. Að „nýir“ Íslendingar geti kynnst, tengst og átt samskipti. Að þeir geti miðlað þekkingu, boðið upp á námskeið, farið á námskeið og skemmt sér.

Meginmarkmiðið með rekstri félagsmiðstöðvarinnar á Suðurnesjum væri að efla, þróa, hvetja og koma á tengingum; fólk væri betur undirbúið fyrir líf í nýju landi. Að sveitarfélög og verkalýðsfélög geti lagt sitt af mörkum við stofnun og rekstur félagsmiðstöðvarinnar.

Markmiðið er að koma félagsmiðstöðinni á fót í hentugu og hagkvæmu húsnæði. Þar verði lítið kaffihús með veitingum. Að tengja saman Íslendinga og nýja íbúa með það að markmiði að efla færni beggja aðila. Á staðnum væri hægt að halda þjóðkynningar – nýir íbúar myndu lýsa heimalandi sínu og mannlífi, og sýna ný sjónarhorn, ólíkt því sem fólk er vant að sjá í gegnum fjölmiðla og fræðirit. Að skipuleggja vinnustofur – að nýir íbúar gætu búið til námskeið fyrir aðra nýja íbúa og kennt til dæmis matargerð frá mismunandi löndum, segir m.a. í kynningu á verkefninu.