Toyota smurdagar 1170
Toyota smurdagar 1170

Fréttir

Aðeins tekið á móti hraustum konum í dag
Heiða B. Jóhannsdóttir ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 18. janúar 2020 kl. 08:03

Aðeins tekið á móti hraustum konum í dag

„Við tökum aðeins á móti hraustum konum í dag sem eru í eðlilegu fæðingarferli,“ segir Heiða B. Jóhannsdóttir ljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og bendir á að lokun skurðstofunnar hafi auðvitað haft mikið að segja í fjölda fæðinga. Fáar fæðingar voru í kringum síðustu jól. Ein fæðing var 16. desember, ein 30. desember og ein á gamlársdag. Fyrsta fæðing ársins 2020 var 6. janúar.

Deildin hefur breyst mikið

„Í dag höfum við á ljósmæðravaktinni, mjög breytt þjónustustig, við sinnum konum á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu en að sama skapi hefur fæðingum fækkað gríðarlega mikið í samfélaginu öllu. Þar sem við erum ljósmæðrarekin eining verðum við að senda allar konur til Reykjavíkur, sem ekki falla undir hraustar konur í eðlilegu fæðingarferli. Það má segja að þær fæðingar sem við sinnum hér þurfi að uppfylla sömu skilyrði og fæðing í heimahúsi. Þrátt fyrir þetta er samt ekki minna að gera hjá ljósmæðrum en deildin hefur breyst mikið eftir að konur hættu að liggja hér á sæng eftir fæðingu en á þessum tíma árið 1983 voru starfandi sjúkraliðar við fæðingardeildina ásamt mun fleira starfsfólki. Konur á meðgöngu hafa mjög gott aðgengi að okkur og við sinnum þeim hvenær sem er sólarhringsins ef á þarf að halda. Í dag fara konur og börnin þeirra oftast heim innan 48 klukkustunda legu á sæng og eru þær almennt mjög ánægðar með það. Þær fá ljósmóður heim til sín einu sinni á dag, oftar ef þarf fyrstu vikuna. Þetta fyrirkomulag er mun skilvirkara og hjálpar konum og foreldrum barnsins, mun meira þegar bæði fræðsla og eftirlit kemur heim til þeirra,“ segir Heiða.

Heilsufar þjóðarinnar er lakara í dag

Heiða talaði einnig um heilsufar kvenna. „Í dag erum við að fá fleiri konur en áður með undirliggjandi vandamál sem hafa áhrif á meðgöngu og fæðingu auk þess sem meðal aldur kvenna sem fæða sitt fyrsta barn fer hækkandi. Já, það verður að segjast eins og er að heilsufarsleg vandamál þjóðfélagsins eru stærri í dag en áður, ef við til dæmis bara horfum á vaxandi tíðni offitu, sykursýki og hjarta og æðasjúkdóma. Við erum að sjá hærra hlutfall kvenna með meðgöngusykursýki og háþrýsting sem krefst nánara eftirlits á meðgöngu. Heilsufarsleg vandamál kvenna á meðgöngu eru því mun stærri í dag en áður,“ segir Heiða ljósmóðir, alvarleg í bragði.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs