Aðsent

Vogahöfn og svæðið umhverfis hannað til framtíðar
Mánudagur 8. ágúst 2022 kl. 10:28

Vogahöfn og svæðið umhverfis hannað til framtíðar

    Skrifað í tilefni samþykktar 40. fundar Skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga 19. júlí 2022.

    Bílakjarninn sumardekk 2024
    Bílakjarninn sumardekk 2024

    Nefndin svarar erindi Bæjarráðs um framtíð fyrstihúsins Vogar hf, sem er við höfnina, byggt 1943.: Nefndin leggur til að húsið verði rifið enda líftíma þess lokið skv. ástandskýrslu. Húsið verði girt af vegna hættuástands sem fram kemur í skýrslu Verkís. Lagt er til að sveitarfélagið fari í skipulagsbreytingar á lóðinni þar sem verði íbúðabyggð, verslun og þjónusta. Einnig er lagt til að fá aðila til að leggja til hönnun á lóðinni þar sem tekið verður tillit til sögu svæðisins.“

    Ekki er tímabært að rífa Frystihúsið Vogar hf. Ekki er heldur ráðlegt að skipuleggja lóð þess eina og sér. Fyrst þarf að hanna og skipuleggja svæðið í kring, báðum megin Hafnargötu. Niðurstaðan gæti orðið sú að rífa hluta hússins og jafnvel húsið allt, en það þarf að skoða út frá svæðinu öllu; út frá sögu sveitarfélagsins og með hliðsjón af framtíð hafnarsvæðisins. 

    Fyrirtækið Vogar hf, sem stofnað var fyrir 80 árum, er býsna mikilvægur hluti af byggðarsögunni. Það byggði fyrsta hluta frystihússins á innan við ári og rak í rúma 4 áratugi. Það, ásamt tilheyrandi útgerð og hafnargerð, varð til þess að mikil uppbygging hófst í Vogum, þar sem fólk fékk næga og örugga atvinnu.

    Vogar h.f. var með fyrstu hraðfrystihúsum á Suðurnesjum og þótti vel tækjum búið á þeim tíma. Þarna var lagður grunnur að uppbyggingu þéttbýlis í Vogum, en á þessum tíma voru þar fá íbúðarhús. Hús Voga h.f. hefur því mikið sögu- og menningarlegt gildi sem varðveita þarf á einhvern hátt, með því að varðveita það, í heild eða hluta þess, eða á annan hátt. Húsið er illa farið vegna áratuga vanhirðu. Verði niðurstaðan að rífa það þarf að rannsaka það og skrá vandlega áður.

    Hafnarsvæðið í Vogum, ásamt Vogatjörn og aðliggjandi strönd, er einstakt – lang mikilvægasti bletturinn í öllu sveitarfélaginu Vogum, hvað landslag, náttúru og ekki síst sögu varðar. Verðmæti þess er miklu meira en samanlagt verðmæti allra lóða innan þess svæðis. Það hvernig til tekst með skipulag þess, uppbyggingu og starfsemi, hefur afgerandi áhrif á ímynd sveitarfélagsins alls og þar með á verðmæti allra lóða sem þar verða byggðar næstu áratugi. Brýnt er að láta verðmæti einstakra lóða við höfnina ekki byrgja sér heildarsýn.

    Hér er að mörgu að hyggja. Á þessum örfáu hekturum þarf að rúmast og vefjast hugvitssamlega saman:

    • Nútíð, fortíð og framtíð.
    • Haf, land og vatn.
    • Mannvirki og náttúra
    • Höfn og hafnarbakki
    • Búseta og margs konar atvinna
    • Frístunda- og ferðaþjónusta
    • Hagsæld og heilbrigði

    Vogahöfn, ásamt nálægum byggingum, varð til vegna útgerðar og fiskvinnslu um miðja síðustu öld. Nú er það liðin tíð, útgerð hætt og fiskvinsla ekki svipur hjá sjón. Nú þarf að hugsa hér allt upp á nýtt! Finna ný verðug hlutverk og skipuleggja og byggja samkvæmt því. Mikið er í húfi að vel taksti til og fjármunum til þess verður vel farið þegar upp verður staðið. 

    Ég verð æ sannærðari um að við eigum að efna til hugmyndasamkeppni um framtíðarnýtingu og uppbyggingu hafnarsvæðis í heild. 

    Ég hreifst er ég heyrði og sá í sjónvarpinu í vor úrslit hönnunarsamkeppni um Leiðarhöfða á Hornafirði,, 1 ha svæði á áberandi stað, og fór á netið að kynna mér betur. Kom í ljós að ég þekki fulltrúa í nefndinni, Sæmund Helgason, þáverandi bæjarfulltrúa. Svo hitt ég óvænt konu sem vann með sömu nefnd, Árdísi Ernu Helgadóttur, atvinnu- og ferðamálafulltrúa, og spurði hana spjörunum úr. 

    Ferlið allt tók tæpt ár og kostar líklega um 20 milljónir. Þau fengu til þess vænan styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. 

    Fyrst var skipuð undirbúningsnefnd sem lagði m.a. spurningakönnun fyrir bæjarbúa um hugmyndir að framtíðarnýtingu svæðisins. Hönnunaraðilar sem völdust til keppninnar fengu niðurstöður hennar ásamt upplýsingapakka um sögu- og náttúru svæðisins. Árdísi fannst hafa tekist mjög vel til og verkefnið mæltist vel fyrir.

    Ferlinu er vel lýst í þessari auglýsingu um keppnina

    Dómnefnd og úrslitum er lýst hér, en dómnefndin var skipuð 3 bæjarfulltrúum og tveimur frá Félagi íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA.

    Hér er vinningstillögum lýst, m.a. með myndum

    Fyrirmynd Hornfirðinganna var ekki síst hugmyndakeppni um Langasand á Akranesi, sem lauk fyrir rúmu ári og er lýst hér.

    Annað metnaðarfullt dæmi er hönnunarkeppni um Breiðina á Akranesi, þar sem bæjarfélagið og hagsmunaaðilar taka höndum saman og virkja hugvitsfólk víð um land – og um heiminn – til að gefa góð ráð. Þar hafa menn nú aragrúa hugmynda úr að moða. Þar ber vinningstillagan heitið Lifandi samfélag við sjó og gerir ráð fyrir blandaðri byggð fjölbreyttra íbúða og atvinnusvæðis þar sem nýbyggingar tengjast endurnýttum eldri byggingum. Hugmyndir eru að útivistar- og þjónustusvæðum við ströndina sem eru tengd innbyrðis og við atvinnu- og íbúðasvæði með strand- og göngustígum.  

    Af ótal dæmum má nefna að 2016 fór fram samkeppni um Gufunessvæðið í Reykjavík, sem nú er farið að vinna eftir.

    Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt er ráð fyrir bæjarstjórn Voga að hefja nú þegar undirbúning hönnunar og skipulagningar hafnarsvæðisins í heild, og aðhafast ekkert með sögufrægt hús Voga hf né lóð þess fyrr en framtíð svæðisins alls hefur verið mótuð.


    Virðingarfyllst

    Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Vogum.