Keflavíkurkirkja
Keflavíkurkirkja

Aðsent

Úrslit kosninga í Suðurnesjabæ 2022
Laugardagur 21. maí 2022 kl. 08:59

Úrslit kosninga í Suðurnesjabæ 2022

Það er vissulega algengt að óvæntir hlutir gerist þegar kosningar eru annars vegar. Um það er hægt að nefna fjölmörg dæmi. Oft og tíðum er ekki alltaf allt sem sýnist. Ég held að það megi segja það um nýliðnar kosningar í Suðurnesjabæ.

Að loknum kosningum núna er ágætt að reyna að greina niðurstöðuna. Ég sendi frá mér grein fyrir kosningar og spáði fyrir um úrslit sem mér fannst vera líkleg á þeim tíma sem ég skoðaði málið. Þegar nær dró kosningum þá fannst mér að spáin mín gæti breyst á þann veg að D-listinn mundi auka fylgi sitt og ná fjórða manni inn á kostnað S-listans, sem mundi þá fá tvo fulltrúa. Ég var þá enn þeirrar skoðunar að B-listinn mundi fá tvo fulltrúa og O-listinn mundi fá einn. Sjónarmið mín byggði ég á mörgum samtölum við fólk svo og þátttöku kjósenda í fjölmörgum viðburðum sem framboðin auglýstu. En ég endurtek, ekki er allt sem sýnist.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Eins og fram kom í áðurnefndri grein minni, klofnaði D-listinn eftir að samþykkt var að sameinast H-listanum og tekin var ákvörðun af þeim sem ósáttir voru um að bjóða fram nýtt framboð, O-listann. Í svargrein sem forystufólk O-listans sendi frá sér vegna greinar minnar og bar fyrirsögnina „Véfréttin Jón Norðfjörð“, höfnuðu þau fullyrðingu minni um þessa óánægju. Ég vil aðeins segja um þetta, að ég stend við það sem ég skrifaði um klofninginn og óánægjuna, enda hefur þetta komið alveg skýrt fram í samtölum við mig og fleiri aðila sem hafa sömu sögu að segja.

Árið 2018 mynduðu meirihluta D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra og Samfylkingin sem bauð fram undir merki J-lista, Jákvæðs samfélags. D-listinn fékk þá þrjá fulltrúa og J-listinn fékk einnig þrjá fulltrúa. Þannig hafði meirihluti sjálfstæðismanna og Samfylkingar sex fulltrúa af níu fulltrúum í fyrstu bæjarstjórninni í Suðurnesjabæ. Með góðum rökum má segja að í kosningunum nú hafi meirihlutinn alls ekki fallið, heldur einungis misst einn fulltrúa og hafi nú fimm fulltrúa í stað sex áður. Í minnihluta 2018 voru H-listi, Listi fólksins með tvo fulltrúa og B-listi Framsóknar og óháðra sem fékk einn fulltrúa.

B-listi Framsóknar bætir við sig rúmlega 28% fylgi frá kosningunum 2018 og fær tvo fulltrúa í stað eins 2018.

Fylgi D-lista Sjálfstæðismanna minnkar um rúmlega 4% þrátt fyrir að hafa sameinast H-listanum. Ef reiknað er út frá samanlögðu fylgi D og H lista 2018, þá hefur fylgið minnkað um 39%. Þeir fá þrjá fulltrúa nú en fengu saman fimm fulltrúa 2018.

Fylgi Samfylkingar, S-listans (áður J-listans), minnkar um 3,8% og fær listinn tvo fulltrúa, en fékk þrjá 2018.

Svo er það O­listinn sem fær 26,5% fylgi og tvo fulltrúa. Þetta fylgi kom mörgum á óvart, ekki síst forystumanni D-listans, Einari Jóni Pálssyni, sem virtist undrandi í viðtali við Víkurfréttir og sagðist hafa átt von á meiru. Ég tek undir með Einari Jóni, fylgi O-listans kom á óvart og í mínum huga er alveg ljóst að óánægjan með sameiningu D- og H-lista hefur verið víðtækari meðal sjálfstæðisfólks en margir gerðu ráð fyrir. Þetta virðist þá hafa farið nokkuð leynt í aðdraganda kosninganna. Það er nefnilega ekki alltaf allt sem sýnist.

Nú er að sjá hverju fram vindur, viðræður D- og B-lista um meirihlutasamstarf eru nú í gangi ef marka má fréttir og fróðlegt að sjá hvert það leiðir.

Að endingu óska ég nýjum bæjarfulltrúum velfarnaðar.

Bestu kveðjur,

Jón Norðfjörð, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kölku.