Aðsent

Sjálfsögð heilbrigðisþjónusta
Föstudagur 27. ágúst 2021 kl. 08:41

Sjálfsögð heilbrigðisþjónusta

Suðurnesjamenn hafa bent á það oft og of lengi að heilbrigðisþjónustuna á svæðinu verði að bæta. En talað fyrir daufum eyrum. Fólkið sem þarf á þjónustunni að halda finnur fyrir því sjálft á eigin skinni hversu ófullnægjandi hún er. Biðtíminn er langur, engir heimilislæknar, húsakostur þröngur og takmarkaðar fjárveitingar valda því að skortur er á heilbrigðisstarfsfólki. Við þetta bætist að sum störf er erfitt að manna vegna þess að fagfólk sækir ekki um stöðurnar.

Heilbrigðisstarfsfólk segir að margir í þeirra röðum séu að bugast undan álagi en fjármálaráðherrann segir þeim bara að hlaupa hraðar. Skilningsleysi á starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og þörfum sjúklinga er óþolandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað er til ráða?

Á Suðurnesjum búa tæplega 30.000 manns og heilsugæsla í heimabyggð ætti að vera fyrir þau öll, en svo er ekki. Fjöldi Suðurnesjamanna er talinn í þúsundum sem sækir þjónustu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Í Suðurnesjabæ er engin heilsugæsla en þar búa um 4.000 manns. Ekkert svo fjölmennt sveitarfélag á landinu býr við slíkt ástand.

Ný heilsugæsla í Reykjanesbæ verður að taka til starfa strax á næsta ári. Og tímasettar og fjármagnaðar áætlanir um heilsugæslu í Suðurnesjabæ verða sömuleiðis að líta dagsins ljós á næsta fjárlagaári. Annað er óásættanlegt fyrir okkur Suðurnesjamenn.    

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur ekki vaxið í takti við fjölgun íbúa enda hafa fjárframlög ekki tekið mið af fjölgun íbúa. En stofnunin þarf ekki bara fjármagn heldur einnig faglegan stuðning og betri starfsaðstöðu.

Ef ríkisreikningar síðustu ára eru skoðaðir sést með skýrum hætti að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er fjársvelt og hefur fengið minna úr að spila miðað við fjölda fólks sem hún á að þjóna en aðrar stofnanir með sama hlutverk. Slíka sveltistefnu verður að stöðva með nýrri ríkisstjórn eftir kosningar í september. Suðurnesjamenn eiga betra skilið.

Aðgengi að sérfræðiþjónustu á HSS má tryggja með því að Landspítalinn skipuleggi heimsókn sérfræðinga til Suðurnesja og með nýjustu tækni fjarlækninga. Landspítalinn er spítalinn okkar allra og ætti að sinna landinu öllu að þessu leyti líka.

Öldrun þjóðarinnar er gleðileg í sjálfri sér en hún kallar á breytta þjónustu við þá sem eldri eru. Þar fer heimaþjónusta og betri heilsugæsla fremst auk fleiri hjúkrunarrýma.

Uppbygging í stað niðurskurðar

Ríkisstjórnin sem brátt lýkur sínu kjörtímabili hefur boðað niðurskurð með fjármálaáætlun sinni upp á tugi milljarða frá og með árinu 2023. Það mun óhjákvæmilega bitna á heilbrigðiskerfinu og annarri velferðarþjónustu.

Við í Samfylkingunni höfnum niðurskurðarleið ríkisstjórnarinnar. Við eigum að mæta fjárhagslegum erfiðleikum vegna Covid-19 með því að dreifa endurgreiðslu skulda á langan tíma og með sértækri tekjuöflun sem ekki er sótt í vasa almennings. Allar aðstæður er til að vaxa út úr efnahagslægðinni og byggja upp í velferðarkerfinu. Það er fjárfesting sem mun borga sig í betra lífi þeirra sem þurfa á velferðarþjónustu að halda.

Ákall almennings er um betri opinbera heilbrigðisþjónustu. Við jafnaðarmenn ætlum að svara því kalli.

Oddný G. Harðardóttir
þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar
í Suðurkjördæmi