Aðsent

Með uppbrettar ermar
Mánudagur 15. febrúar 2021 kl. 09:16

Með uppbrettar ermar

„Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn, fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn“ (Ólína Andrésdóttir).

Suðurnesjabúar eru gjarnan taldir hraustir, duglegir, tónelskir og ævintýragjarnir. Ég tek undir það enda fá samfélög sem hafa unnið jafn vel úr efnahagsdýfum og sveitarfélögin á Suðurnesjum. Hér er fólk sem brettir upp ermar og tekur til hendinni þegar eitthvað bjátar á. Nú eru erfiðir tímar, atvinnuástandið er bágborið, stærsti hópur atvinnuleitenda eru einstaklingar á aldrinum 24 til 39 ára og hlutfallslega flestir hér á Suðurnesjum. Að mestu er þetta verkafólk sem hefur ekki réttindi til annarra starfa og margir af erlendum uppruna. Sumir eru búnir að vera án atvinnu í ár með öllu sem því fylgir en aðrir sem voru í atvinnuleit áður en kófið skall á enn lengur. Ríkið hefur að einhverju leyti komið til móts við þennan hóp, t.d. með lengingu tímabils bótaréttar og stuðningi við sveitarfélög til atvinnuúrræða en betur má ef duga skal. Hér á Suðurnesin þarf fjölbreyttari atvinnuflóru og við hana þarf ríkið að styðja. Gera má þá kröfu að stefnan sé sett á Suðurnesin þegar stofnað er til nýrra starfa og stofnana hjá ríkinu og leitast við að efla og styrkja fyrirtæki og menntastofnanir sem fyrir eru. Fyrir utan atvinnuástandið er gott að búa á Suðurnesjum, hér mikil gróska hvort sem um ræðir menningu eða menntamál. Hér eru öflugir skólar á öllum skólastigum, viðamikil fullorðinsfræðsla og mikill hugur í fólki til uppbyggingar og nýsköpunar. Afar mikilvægt er því að búa hér til öruggt starfsumhverfi með fjölbreyttu atvinnulífi, líkt og nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum, heilsugæslu, öflugum grænum iðnaði, ferðaþjónustu og verslun þannig að allir sem hér vilja búa finni störf við hæfi og unga fólkið sem sækir sér menntun fái atvinnu að námi loknu. Það er ótækt að 28 þúsund íbúar Suðurnesja þurfi ítrekað að sækja sér verslun, atvinnu og afþreyingu til höfuðborgarinnar, já og jafnvel heilsugæslu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Staðreyndin er sú að við Suðurnesjabúar fáum töluvert minni fjárframlög en aðrir landsmenn þegar kemur að rekstri heilsugæslu og Suðurnesjabær með sína tæplega 3800 íbúa hefur til að mynda enga heilsugæsluþjónustu líkt og önnur sveitarfélög, stærri og minni. Vissulega má skýra það að hluta með sérfræðiþjónustu sem sækja þarf til höfuðborgarsvæðisins en hitt er að um leið er verið að beina okkur á heilsugæslu höfuðborgarinnar og á einkareknar heilsugæslustöðvar. Hér á Suðurnesjum fær enginn fastan heimilislækni þó skýrt sé í reglugerð að svo eigi að vera “Einstaklingur skal að jafnaði skráður á ákveðna heilsugæslustöð hjá tilteknum heimilislækni og skal heilbrigðisstofnun sem heilsugæslustöð tilheyrir leitast við að tryggja það.” (Reglugerð 1111/2020). Í þessari reglugerð er auk þess kveðið á um önnur réttindi sem við Suðurnesjabúar höfum farið á mis við til margra ára. Þetta er ójöfnuður sem við einfaldlega sættum okkur ekki við. Þar að auki eru það gjarnan atvinnuleitendur sem bætast við þann hóp sem fyrir er og þarf að nýta sér heilsugæslu í frekara mæli og því ættu framlög nú jafnvel að vera hærri hér en annars staðar ef tekið er tillit til þessa.

Þegar kemur að uppbyggingu og framtíðarsýn Suðurnesja er ég engu að síður afar bjartsýn. Það er t.d. ekki öll landsvæði sem geta státað sig af því að hafa alþjóðaflugvöll innan jarðvangs líkt og við á Suðurnesjum. Það er einstakt. Ég trúi því að vilji sé til góðra verka bæði ríkis og sveitarfélaga og ég veit að víða er verið að vinna að eflingu og uppbyggingu samfélagsins og saman getum við gert svo ótal margt. Hér á Suðurnesjum er fjölmargt upp á að bjóða og höfum hugfast að það var ferðaþjónustan sem átti stóran þátt í að rétta af efnahaginn eftir hrun og hún mun koma sterk inn aftur. Við erum með ósnortna yndislega náttúru, dásamleg víðerni, einstakar jarðmyndanir og jarðhitasvæði sem laða að og hingað sækir ferðafólk sem hefur yndi af stórbrotnu umhverfi. Því er mikilvægt að gæta að þessum náttúruperlum okkar með uppbyggingu, sjálfbærni og skipulagðri nýtingu í huga. Það er einnig atvinnuskapandi og ef við Suðurnesjamenn viljum eitthvað þá er það að fá að vinna.


Hólmfríður Árnadóttir
Höfundur er formaður Svæðisfélags VG á Suðurnesjum og frambjóðandi í 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi til næstu alþingiskosninga.