Aðsent

Málefni barna í forgrunni því þau eru framtíðin
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:29

Málefni barna í forgrunni því þau eru framtíðin

Eitt af því mikilvægasta í lífinu eru börnin okkar. Það er hlutverk okkar fullorðna fólksins að tryggja þeim framtíðartækifæri, vellíðan og hamingju. Öll börn eiga að njóta jafnra tækifæra, upplifa sig velkomin til þátttöku í tómstundastarfi og skóla óháð félagslegum aðstæðum og bakgrunni. Til að skapa barnvænt samfélag er nauðsynlegt að setja börn og fjölskyldur þeirra í forgrunn þjónustulausna og að stuðlað sé að auknu samstarfi meðal stofnanna og kerfa.

Ég hef hrifist af vinnu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Hann hefur lagt mikla áherslu á málefni barna í sínum störfum og leitt sennilega mestu breytingu sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi. Breytingin felur í sér samþættingu um  heildstæða þjónustu við börn og hugsuð sem snemmbær stuðningur. Við í Framsókn ætlum að styðja við þá þjónustu í þágu farsældar barna samkvæmt nýju farsældarlögunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar við ræðum um arðsemi fjárfestinga í samfélaginu okkar er áhugavert að við horfum yfirleitt á eitthvað efnislegt. Við þurfum að horfa á arðsemi þess að fjárfesta í fólki til lengri tíma. Grindavík er öflugt samfélag þar sem börn geta leitað í margar íþróttagreinar og tómstundir hafi þau áhuga á því. Það er til fyrirmyndar hversu lág æfingagjöld eru fyrir börn í Grindavík. Á þessu þurfum við að byggja áfram til að mynda með bættri aðstöðu til íþróttaiðkunar, æskulýðs- og félagsstarfs.

Willum Þór heilbrigðisráðherra nefndi við okkur á dögunum að framundan er stórt átaksverkefni í þinginu sem lýtur að lýðheilsu og geðheilbrigði. Horft verður til samstarfs við sveitar- og ungmennafélög. Áskoranir sem unglingarnir okkar standa frammi fyrir eru aðrar en fyrri kynslóðir stóðu frammi fyrir. Dæmi um slíkar áskoranir eru lítill svefn, hættur netsins, skjáfíkn, orkudrykkir og nikótínpúðar og því er mikilvægt að vinna markvisst í forvörnum og fræðslu.

Ég hlakka til að sjá vinnu með framhaldið sem verður örugglega til mikilla hagsbóta fyrir börn og ungmenni.

Við viljum að Grindavík verði í fararbroddi þegar kemur að velferð barna og ungmenna. Taktu þátt í því með okkur.

Kæri íbúi Grindavíkur við óskum eftir þínum stuðningi þann 14. maí og biðjum þig að setja X við B.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, oddviti B-lista Framsóknar í Grindavík.