Aðsent

Hvað með unga fólkið?
Miðvikudagur 21. febrúar 2024 kl. 15:16

Hvað með unga fólkið?

Nú eru liðnir rúmlega 100 dagar frá rýmingu Grindavíkurbæjar. Í rúma hundrað daga hafa Grindvíkingar lifað í mikilli óvissu um framtíð sína. Nýverið birti ríkisstjórn Íslands frumvarp sem kveður á um heimild fyrir ríkið til að kaupa fasteignir Grindvíkinga.

Ríkið gerir ráð fyrir að kaupa fasteignir á allt að 95% brunabótamati fasteignarinnar, þ.e. taka yfir áhvílandi skuldir og greiða eigið fé að hámarki 95% brunabótamati. Brunabótamat út á landi er almennt hærra en á höfuðborgarsvæðinu og telur því ríkisstjórnin greiðslu byggða á brunabótamati koma sér ágætlega vel fyrir íbúa Grindavíkur. Það gerir það vissulega í ákveðnum tilvikum, hins vegar í alltof mörgum tilvikum gerir það ekki. Þá sérstaklega í tilviki fyrstu íbúðarkaupenda. Fyrstu kaupendur koma virkilega illa út úr þessu. Fjölmörg dæmi eru uppi um að fyrstu kaupendur munu tapa öllu sínu eigið fé og komi í nokkurra milljóna króna mínus út við uppkaup ríkisins. Enda er brunabótamat þeirra íbúðareininga sem henta fyrstu kaupendum í Grindavík hvað best, mun lægra en markaðsverð þessara eigna

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

 Fyrstu kaupendur, sem eru í flestum tilvikum ungt fólk, fá rýmri heimildir en aðrir í fasteignakaupum. Sem dæmi um slíkar heimildir:

  • Heimild til að taka lán fyrir allt að 85% af markaðsvirði fasteignar í stað 80%
  • 100% afsláttur af lántökugjöldum.
  • Hærra greiðslubyrðarhlutfall, þ.e. 40% í stað 35%.
  • Lægri stimpilgjöld, þ.e. 0,4% í stað 0,8%.
  • Heimild til að nýta viðbótarlífeyrissparnað sinn skattfrjálst í útborgun á fasteign eða sem greiðslu inn á lán.

Með kaupum ríkisins á eignum fyrstu íbúðarkaupenda missa þeir þessi úrræði sem áður bauðst þeim. Þar sem veðflutningur er ekki heimilaður eins og í hefðbundnum fasteignaviðskiptum, þá neyðast fyrstu kaupendur til þess að taka ný lán með allt öðrum kjörum, þ.e. ef þeir hafa ekki misst allt sitt eigið fé við uppkaupin. Þessir einstaklingur munu ekki einungis þurfa sitja með sárt enni fyrir að hafa tapað eigið fé sínu, heldur þurfa þeir núna að fara leggja meira út í útborgun, kaupa minni en dýrari fasteign og keppast við aðra kaupendur sem eiga meira eigið fé um kaup á nýrri fasteign.  Ásamt því að glata öllum þeim úrræðum sem nefnd voru hér að framan.

Þá eru þónokkrir fyrstu kaupa eigendur sem keyptu fasteignir nokkrum vikum eða dögum fyrir rýmingu 10. nóvember sl. og fengu fasteign sína aldrei afhenda vegna aðstæðnanna. Þessir aðilar missa nú öll úrræði þrátt fyrir að hafa aldrei fengið tækifæri á að búa í eigninni sinni og njóta þeirra úrræða sem þeim bauðst sem fyrstu íbúðarkaupendur.

Vakna því spurningar hvað ríkisvaldið hefur í hyggju að gera fyrir ungt fólk í Grindavík þar sem núverandi frumvarp fjármálaráðherra gerir fyrstu kaupendur verr sett en aðra í bænum. Það er einlæg von Raddar unga fólksins í Grindavík að ríkisvaldið grípi þetta fólk til að forða því frá gjaldþroti. Sem yrði þá enn eitt áfallið sem lagt yrði á okkur Grindvíkinga. Ljóst er að áföllin eru ríkinu dýr og því mikilvægt að reyna koma í veg fyrir þau áföll sem við getum. Við stór áföll í gegnum tíðina höfum við staðið saman sem þjóð og er nú kominn tími á að ríkið standi með okkur unga fólkinu og sýni það í verki.

Fyrir hönd Rödd unga fólksins

Helga Dís Jakobsdóttir

Ragnheiður Eiríksdóttir

Sævar Þór Birgisson.