Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Hvað með félagsstarf  yngri borgara?
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:37

Hvað með félagsstarf yngri borgara?

Á kjörtímabilinu sem er að líða hefur félagsstarf eldri borgara fengið töluverða athygli hér í Grindavík, og fagna ég því. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar stækkar þessi þjóðfélagshópur hratt og Grindavíkurbær sem sveitarfélag þarf að sinna honum af ábyrgð og röggsemi. Öldrunarþjónusta er lögboðin þjónusta sveitarfélaga og þar hefur núverandi meirihluti hreinlega dregið lappirnar síðustu ár.

En nú sér loks til lands í því stóra verkefni sem er félagsaðstaða eldri borgara. Samfylkingin og óháðir munu leggja áherslu á að koma því verkefni á skrið enda verða þá slegnar tvær flugur í einu höggi með því að byggja um leið fullkomið og nútímalegt húsnæði fyrir heilsugæslu í sama húsi. Heilbrigðisþjónusta er eitt af þeim verkefnum sem er ekki á ábyrgð sveitarfélagsins, en mælist þó alltaf afar neðarlega í ánægjukönnun íbúa. Með því að skaffa HSS fullkomna aðstöðu fyrir heilsugæslu getur Grindavíkurbær lagt sitt lóð á vogarskálarnar í að efla þessa þjónustu í heimabyggð.

Public deli
Public deli

Ef heilsugæslan flytur af Víkurbraut 62 losnar þar umtalsvert pláss, og vill svo til að það eru fleiri en eldri borgarar í Grindavík sem þyrstir í meira pláss og húsnæði. Má segja að með þessum flutningum fari ákveðinn húsnæðiskapall af stað sem væri áhugavert að sjá hvernig gengur upp. Félags- og skólaþjónustan okkar er t.d. á algjörum hrakhólum. Þá hefur einnig verið kallað eftir meira rými fyrir Þrumuna og að komið verði upp ungmennahúsi fyrir félagsstarf 16-25 ára.

Félagsstarf 16-25 ára ungmenna verður gjarnan afgangsstærð í umræðunni, þá sérstaklega yngsta aldursbilið, sem lendir einhvern veginn á milli. Persónulega langar mig að vinna í þessum málum í góðu samtali við þennan hóp og eiga samtal Ungmennaráð og Þrumuna. Mig langar líka að efla Þrumuna. Þar er unnið ómetanlegt forvarnarstarf af öflugum hópi og við þurfum að fjölga stöðugildum þar. Ég held að flestir geri sér ekki grein fyrir því hversu öflugt starfsfólk Þrumunnar er, og hversu mikið starf þau vinna miðað við hversu fá stöðugildin þar eru.

Mín framtíðarsýn er sú að í Grindavík rísi öflugt ungmennahús. Hvar nákvæmlega væri gott að ákveða í samráði við þá sem nota það. Hugmyndir sem nefndar hafa verið eru t.d. á reitnum þar sem gömlu smíða- og myndmenntastofurnar eru núna eða nálægt íþróttahúsinu. Þriðja hæðin á Víkurbraut 62 gæti líka komið til greina. Í ungmennahúsi gætum við líka komið upp öflugri aðstöðu fyrir rafíþróttadeild UMFG.

Möguleikarnir eru margir og tækifærin eru klárlega til staðar. Það er okkar sem skipum næstu bæjarstjórn að nýta þessi tækifæri. Vonandi fáum við í Samfylkingunni og óháðum ykkar stuðning til að láta þessar hugmyndir verða að veruleika.

Siggeir F. Ævarsson,
oddviti Samfylkingarinnar og óháðra í Grindavík.