JS Campers
JS Campers

Aðsent

Haukur Ottesen - minning
Föstudagur 30. apríl 2021 kl. 07:40

Haukur Ottesen - minning

(f. 29. maí 1953 – d. 8. apríl 2021)

Í ágúst 2005 hóf ég störf í Sundhöll Keflavíkur sem sundlaugarvörður, þar var sundkennarinn Haukur Ottesen sem hafði starfað í höllinni í 30 ár. Það var hann Vilhjálmur heitinn Ketilsson, skólastjóri á þeim tíma í Myllubakkaskóla, sem réði Hauk til starfa árið 1976 og var Haukur ævinlega þakklátur Vilhjálmi fyrir það.

Það var mikil unun að sjá eljuna og áhugann sem hann sýndi í starfi sínu. Haukur var ákveðinn og hann hafði sínar reglur en aldrei ósanngjarn. Hann var stríðinn og þegar krakkarnir báðu um leiktíma var eitt skilyrði í því að þau kölluðu „áfram KR“, enda var Haukur mikill KR-ingur. Þegar tímanum lauk mynduðu krakkarnir tvær raðir til þess að ganga niður í klefana. Í dyragættinni snéru þeir allra hörðustu sér við og kölluðu „áfram Keflavík“, þá brosti minn maður og hafði gaman af. Um haustið 2006 færðist sundkennsla Myllubakkaskóla upp í Sundmiðstöðina Vatnaveröld og starfaði Haukur þar til ársins 2018. Hann hafði staðið vaktina á bakkanum í 42 ár með börnum okkar Keflvíkinga og keyrði Reykjanesbrautina fimm daga vikunnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lífið getur verið grimmt, Haukur náði aðeins tveimur árum með ástvinum sínum eftir að hann hafði lokið ævistarfi sínu. Hann féll frá þann 8. apríl síðastliðinn, eftir erfiða baráttu við illvígann sjúkdóm. Um leið og ég þakka Hauki fyrir samstarfið og góða vináttu, votta ég Guðlaugu, dætrum, öðrum ættingjum og vinum mína dýpstu samúð.

Útför Hauks fór fram 23. apríl síðastliðinn í Lindakirkju í Kópavogi.

Hvíl í frið kæri vinur,
Jón Ásgeir Þorkelsson.