Aðsent

Gerum betur fyrir ungmenni í Grindavíkurbæ
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:31

Gerum betur fyrir ungmenni í Grindavíkurbæ

Nú er ég að klára annað árið mitt í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Bæði árin hafa mikið einkennst af Covid-19 en heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif m.a. á framhaldsskólanema.

Þessi tími var ekki sá skemmtilegasti en mér finnst ég sjálfur hafa verið heppinn með margt. Ég er með gott bakland og var mikið með fjölskyldunni að spila og var samveran meiri en vanalega. Félagslífið var lítið sem ekkert en ég gat alltaf spilað körfubolta. Ég hef æft körfubolta í tólf ár og ég fann hvað hann var stór partur af mér og gaf mér mikið þegar reyndi á. Ég náði líka að sinna náminu mínu vel í gegnum fjarnám og átti oft auðveldara með að einbeita mér þegar ég var einn heldur en inni í kennslustundum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég var heppinn og ég geri mér grein fyrir því. Á tímum Covid-19 hefur vanlíðan ungmenna og brottfall úr skóla aukist. Það er ekki hægt að líta framhjá þessum vandamálum. Grindavíkurbær þarf að gera betur fyrir ungmenni á aldrinum sextán til tuttugu ára. Frístundastarf ungmenna er ekki lögbundin og því þurfum við að standa vörð um það. Í dag er Þruman með vel menntað og metnaðarfullt starfsfólk. Við þurfum að nýta tækifærið á meðan það gefst! Við í Rödd unga fólksins viljum sjá aukið fjármagn til Þrumunnar. Það þarf að mynda framtíðarstefnu í frístundastarfi fyrir alla aldurshópa og halda áfram uppbyggingu á ungmennahúsi hjá Grindavíkurbæ.

Jón Fannar hefur setið í ungmennaráði Grindavíkurbæjar og skipar í dag 12. sæti á lista Raddar unga fólksins.