HMS
HMS

Aðsent

Baráttumál eldri borgara
Sunnudagur 24. október 2021 kl. 13:59

Baráttumál eldri borgara

Öldungaráð Suðurnesja hélt aðalfund sinn 15. október síðastliðinn Það var árið 2014 sem Öldungaráð Suðurnesja var stofnað og hefur á þessum árum unnið ötullega að baráttumálum eldri borgara á Suðurnesjum og þótt nokkur árangur hafi náðst eru ansi mörg hagsmunamál enn eftir sem árangur þarf að nást í.

Nú er nýtt kjörtímabil að hefjast á Alþingi. Það eru sex þingmenn sem sitja á nýju þingi sem búsetir eru hér á Suðurnesjum. Öldungaráð væntir þess að geta átt gott samstarf við þessa þingmenn til að ná fram okkar hagsmunamálum.

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris

Nýtt hjúkrunarheimili

Samþykktir liggja fyrir um að hafin skuli bygging á nýju 60 rúma hjúkrunarheimi í nágrenni Nesvalla. Við það munu skapast 30 ný rými þar sem starfsemi á Hlévangi verður hætt. Þrátt fyrir þessi fögru fyrirheit hefur skóflustunga að nýju heimili ekki átt sér stað. Það verður því verk að vinna fyrir Öldungaráð að ýta á eftir þessu framfaramáli.

Dagdvalarrými

Samningar hafa tekist um að reka átta dagdvalarrými í Suðurnesjabæ á Garðvangi. Þessu ber að fagna og að sjálfsögðu munum við fylgjast með að þetta verði að raunveruleika.Þetta er mjög góð leið fyrir þá eldri borgara sem geta ekki dvalið að öllu leyti á sínu heimili og fá þannig góða þjónustu yfir daginn.

Fjögur þúsund sækja þjónustu annað

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur í mörg ár verið mikið til umræðu. Margir kvarta yfir að læknaþjónusta sé engan veginn nógu góð. Það virðist t.d. með öllu útilokað að við hér á Suðurnesjum getum fengið okkar eigin heimilislækni. Þetta hefur þýtt það að yfir 4.000 einstaklingar leita eftir læknisþjónustu á Reykjavíkursvæðið. Það ættu allir að geta verið sammála um að þetta getur ekki gengið svona áfram.

Nýjar heilsugæslustöðvar

Heilbrigðisráðherra hefur gefið út vilyrði fyrir nýrri heilsugæslustöð í Njarðvík. Þrátt fyrir það hefur ekki sést nein auglýsing um húsnæði eða frekari samninga. Það verður því hlutverk Öldungaráðs að knýja á um að þessi mál fái jákvæða niðurstöðu í góðu samstarfi með þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum. Það væri mjög æskilegt að rekstur þessarar nýju heilsugæslustöðvar verði boðinn út þannig að einkaaðilar tækju að sér reksturinn. Það fyrirkomulag þýðir ekki að viðskiptavinir borgi hærra gjald. Þeir borga það sama og HSS. Með þessu myndu ansi margir af þeim fjögur þúsund sem sækja þjónustu annað koma til baka. Ný heilsugæslustöð myndi einnig verða til þess að bæta heilsugæslustöðina á HSS. Í framhaldinu þarf svo einnig að huga að nýrri heilsugæslustöð í Suðurnesjabæ.

Bæta þarf kjörin

Í kosningabaráttunni ræddu allir flokkar að bæta þyrfti kjör eldri borgara. Öldungaráð Suðurnesja mun fylgja þessum málum eftir. Það eru allt of margir eldri borgarar sem búa við slök kjör. Það gengur ekki lengur að þessi mál verði áfram óbreytt. Það þarf og verður að bæta kjör þessa hóps.

Sigurður Jónsson,
formaður Öldungaráðs
Suðurnesja