Íþróttir

Úrslit dagsins: Njarðvík og Þróttur Vogum með sigra
Frá leik Njarðvíkur fyrr í sumar
Laugardagur 29. ágúst 2015 kl. 21:18

Úrslit dagsins: Njarðvík og Þróttur Vogum með sigra

Sigurgöngu Víðismanna lokið í bili - Grindavíkurkonur gerðu jafntefli

Fjölmargir leikir fóru fram í neðri deildunum í dag þar sem að nokkur Suðurnesjalið voru í eldlínunni.

Njarðvíkingar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á liði Hugins í 2. deild karla en leikið var á Seyðisfirði. Það var Theódór Guðni Halldórsson sem skoraði eina mark leiksins fyrir Njarðvíkinga á 74. mínútu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stigin þrjú eru kærkominn fyrir Njarðvík sem berst fyrir sæti sínu í deildinni en liðið lyfti sér úr fallsæti með sigrinum og situr í 9. sæti með 19 stig, einu stigi frá fallsæti.

Í 3. deild karla var sigurgana Víðismanna stöðvuð en Garðmenn höfðu ekki tapað leik frá því 2. júlí s.l. Völsungur mætti í heimsókn á Nesfisksvöllinn og fóru norðanmenn með 1-2 sigur eftir að Víðsmenn höfðu verið fyrri til að skora. Árni Gunnar Þorsteinsson kom Víði yfir á 17. mínútu en Húsvíkingar tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum um miðbik síðari hálfleiks.

Þrátt fyrir tapið eru Víðismenn  í 7. sæti deildarinnar og geta endanlega tryggt sæti sitt með hagstæðum úrslitum úr leik Einherja og Berserkja sem fer fram á morgunn en Berserkir verða að sigra til að eiga möguleika á að halda sæti sínu.

Þá voru leiknir fyrri leikir í 8 liða úrslitum umspils 4. deildar karla og 1. deildar kvenna um laus sæti í 3. deild og Pepsí deild að ári.

Þróttur Vogum svo gott sem tryggði sér farseðilinn í undanúrslitin með 0-4 sigri á liði Hvíta Riddarans á N1 vellinum í Mosfellsbæ. Þróttarar voru mun sterkari aðilinn allan tímann og sigurinn aldrei í hættu. Það voru þeir Kristinn Hjartarson, Páll Guðmundsson (2) og Ragnar Valberg Sigurjónsson sem að skoruðu mörk Þróttar.

Seinni leikur liðanna fer fram á Vogabæjarvelli á þriðjudagskvöld.

Grindavíkurkonur urðu að sætta sig við jafntefli í fyrri leik sínum gegn Augnablik í umspili 1. deildar kvenna. Grindavík komst yfir með marki Helgu Guðrúnar Kristinsdóttur á 23. mínútu. Síðustu 15 mínútur leiksins voru svo ansi fjörugar þar sem að heimakonur í Augnablik jöfnuðu á 75. mínútu áður en MarjanI Hing-Glover kom Grindavík aftur yfir á 81. mínútu. Augnablik tókst svo að jafna aftur metin á 84. mínútu og þar við sat og er því allt galopið fyrir síðari leik liðanna sem fram fer á þriðjudagskvöldið í Grindavík.