Grindavík og Keflavík komust áfram í Mjólkurbikar karla
Víðir og Hafnir úr leik
Það sáust mögnuð tilþrif í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu sem var leikin í gær. Mark umferðarinnar er án efa mark Víðismannsins David Toro Jimenez sem skoraði af um sjötíu metra færi gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings.
Sami Kamel var heldur betur á skotskónum þegar hann afgreiddi Blika með tveimur glæsimörkum en Keflavík vann leikinn 2:1 og voru undir mikilli pressu frá Blikum í lokin.
Grindavík lenti undir á 13. mínútur gegn ÍBV á Hásteinsvelli í gær en Grindvíkingar gáfust ekki upp og Eric Valos Ramos jafnaði leikinn í fyrri hálfleik (29'). Ramos fékk svo að líta sitt annað gula spjald rétt fyrir hálfleik (43') og Grindvíkingar því manni færri í seinni hálfleik. Þeir létu það ekki á sig fá og Josip Krznaric skoraði sigurmarkið í uppbótartíma (90'+1). Markið kom upp úr vítaspyrnu sem markvörður ÍBV varði en eftir darraðadans skoraði Krznaric.
Víðismenn eru dottnir úr leik eftir hetjulega baráttu við Víking Reykjavík. David Toro Jimenez kom Víðismönnum yfir á 13. mínútu en Víkingar jöfnuðu skömmu síðar (16'). Staðan var jöfn í hálfleik en þrjú mörk bikarmeistaranna í seinni hálfleik (68', 80' og 82') gerðu út um leikinn.
Þá léku Hafnir við ÍH í Skessunni í Hafnarfirði og Hafnamenn lentu undir í upphafi með tveimur mörkum á tíu mínútna kafla (2' og 12'). Anton Freyr Hauks Guðlaugarson minnkaði muninn á 17. mínútu en ÍH bætti tveimur mörkum við skömmu fyrir hálfleik (40' og 44'). Staðan var því 4:1 í hálfleik og hélst þannig þar til Bergsveinn Andri Halldórsson minnkaði muninn á 87. mínútu og 4:2 urðu lokatölur.
Svipmyndir úr leikjunum frá RÚV má sjá í spilurunum hér að neðan og neðst á síðunni er myndasafn Jóhanns Páls Kristbjörnssona, ljósmyndara Víkurfrétta, úr leik Keflavíkur og Breiðabliks.