Aron bestur í Enduro keppni á Kýpur

Aron Ómarsson, vélhjólakappi frá Suðurnesjum, gerði sér lítið fyrir og sigraði tvær Enduro keppnir á Kýpur um síðastliðna helgi. Eftir frábært gengi í erfiðustu keppni í heimi í Rúmeníu fyrr í sumar, þar sem Aron vakti mikla athygli, bauðst honum tækifæri á að keppa í þessari svokölluðu Left N’ Ride enduro keppni. Keppnin var haldin í Limassol á vegum Redbull og keppt var í tveimur keppnisgreinum.

Fyrri parts dags var keppt í fimm kílómetra langri braut með lítils háttar hindrunum þar sem Aron sigraði allar þrjár umferðir dagsins. Eftir hádegi var svo keppt í „Hard Enduro” þar sem keppendur voru sendir í ákveðnar hindranir. Aron gerði sér lítið fyrir í þeirri grein og stakk hina keppendurnar af og var sá eini sem komst í gegnum brautina í fyrstu tilraun áfallalaust.

Keppendur frá Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Grikklandi og Úkraínu voru á meðal þáttakenda en Aron var í algjörum sérflokki þennan daginn.

Hann kemur heim með þrenn verðlaun í farteskinu eftir þessa keppni og bætir við enn einum stórsigrinum á erlendri grundu. Að sögn Arons hefur honum nú þegar borist tvö tilboð um að keppa í Bretlandi og Grikklandi fljótlega eftir áramót.