Töpuðu með einu uppi á Skaga
Grindavík tapaði naumlega fyrir ÍA í fyrstu umferð Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu í gær.
Mikil meiðsli setja mark sitt á lið Grindavíkur í upphafi móts en Dröfn Einarsdóttir og Ísabel Jasmín Almarsdóttir eru báðar að glíma við brot, Dröfn er með brotið bringubein og Ísabel brot í rist. Þá var Helga Rut Einarsdóttir að jafna sig eftir að hafa fengið höfuðhögg í Lengjubikarnum. Júlía Ruth Thasapong lék seinni hálfleik en hún kom heim úr námi frá Bandaríkjunum fyrr um daginn og þá var Viktoría Sól Sævarsdóttir kölluð inn í hópinn en hún hafði ákveðið að leika ekki fótbolta í sumar. Þannig að það má sjá að hlutirnir eru ekki alveg að detta með Grindavík svona í upphafi.
ÍA - Grindavík 1:0
Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni og Skagakonur voru ákveðnari í fyrri hálfleik en án þess að skapa sér nokkur færi. Eina mark leiksins kom eins og þruma úr heiðskýru lofti á versta tíma en ÍA skoraði undir lok fyrri hálfleiks (43').
Seinni hálfleikur var mun jafnari og bæði lið gerðu sitt til að ná undirtökunum. Grindvíkingar náðu yfirhöndinni í lok leiks og gerðu harða atlögu að Skagakonum en náðu þó ekki að skora þrátt fyrir ágætis tilraunir og þar við sat.
Grindavík mætir HK á heimavelli í næstu umferð. Sá leikur fer fram mánudaginn 13. maí og hefst kl. 19:15.