Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrirvari kvikuhlaups getur orðið mjög stuttur og jafnvel enginn
Svona var umhorfs við eldstöðina á sunnudaginn. VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 7. maí 2024 kl. 19:14

Fyrirvari kvikuhlaups getur orðið mjög stuttur og jafnvel enginn

Smáskjálftavirkni hefur aukist jafnt og þétt undanfarna viku á svæðinu í og við kvikuganginn

Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram. Hraun rennur stutta vegalend frá gígnum og virknin í gígnum fer minnkandi. Litlar eða engar breytingar hafa orðið á suðurhluta hraunbreiðunnar nærri varnargörðunum austan Grindavikur síðustu vikuna, segir í nýrri tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Kvikusöfnun og landris heldur áfram í Svartsengi. Hefur hraðinn haldist nánast óbreyttur síðustu vikur (sjá mynd hér að neðan). Þessar mælingar benda til þess að þrýstingur haldi því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu. Áfram eru því líkur á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Smáskjálftavirkni hefur aukist jafnt og þétt undanfarna viku á svæðinu í og við kvikuganginn. Skjálftarnir, sem langflestir eru undir 1 að stærð, hafa verið norðan við núverandi gosop, á milli Sundhnúks og Stóra Skógfells, sunnan Þorbjarnar í stóra sigdalnum við Grindavík, og á milli Grindavíkur og gosstöðva. Þessi hæga aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Mynd07052024

Kortið sýnir skjálftavirkni á svæðinu frá 15. apríl, bæði sjálfvirkar stærðir og staðsetningar og yfirfarna skjálfta Á efra grafinu hægra megin sést stærð skjálftanna og á neðra grafinu sést fjöldi skjálfta á dag.

Þessar tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Mikilvægt er að benda á að fyrirvarinn getur orðið mjög stuttur, innan við hálftími, jafnvel enginn.

Hættumat er óbreytt frá síðustu útgáfu. Í síðustu viku var hætta vegna hraunflæðis á svæði 4 (Grindavík) aukin úr töluverðri hættu í mikla, sem er út frá þeim sviðsmyndum sem nú eru taldar líklegastar.

Haettusvaedi_VI_7mai_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærra)

Erfitt að spá fyrir um endalok atburðarásarinnar sem hófst í lok október

Eins og áður hefur komið fram ríkir óvissa um framvindu jarðhræringanna nú þegar eldgos hefur varað í meira en mánuð á sama tíma og kvika safnast saman í kvikuhólfið undir Svartsengi. Þó svo að sviðsmyndirnar hér að ofan séu taldar þær líklegustu er áfram grannt fylgst með hvort að kvika sé að leita annað en yfir í Sundhnúksgígaröðina. Horft er til svæðanna norðan Stóra-Skógfells og sunnan Hagafells og Þorbjarnar.

Ef kvika færi að brjóta sér leið til yfirborðs utan þeirra svæða sem gosið hefur á nú þegar, væri fyrirvarinn á slíkum jarðhræringum meiri og kæmi fram í mun kraftmeiri og ákafari skjálftavirkni en verið hefur í aðdraganda síðustu gosa.