Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Góður leikur Keflvíkinga dugði ekki gegn Val
Saorla Lorraine Miller var mjög öflug í liði Keflavíkur og eftir skot hennar kom eina mark Keflavíkur. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 8. maí 2024 kl. 22:28

Góður leikur Keflvíkinga dugði ekki gegn Val

Keflavík tapaði naumlega í kvöld fyrir Íslandsmeisturum Vals í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Keflavík leiddi í hálfleik en Valskonur skoruðu tvö mörk á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks og þrátt fyrir þunga sókn Keflavíkur undir lokin urðu mörkin ekki fleiri.

Keflavík - Valur 1:2

Keflvíkingar voru heilt yfir betri aðilinn í fyrri hálfleik og uppskáru mark eftir rúmlega hálftíma leik. Saorla Lorraine Miller átti þá skot sem fór af varnarmanni og inn fyrir vörn Vals, þar kom Elfa Karen Magnúsdóttir aðvífandi og átti skot/fyrirgöf sem Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður Vals, náði að koma við boltann en hann endaði fyrir innan marklínu og staðan 1:0 fyrir Keflavík (35’).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Valskonur settu pressuna á Keflavík og jöfnuðu leikinn snemma í seinni hálfleik (54’). Þær náðu svo forystu um fímm mínútum síðar (60’) en Keflvíkingar virtust missa einbeitinguna þessar fyrstu fimmtán mínútur og var refsað fyrir.

Greinileg vonbrigði í svip Keflvíkinga eftir seinna mark Vals.

Keflavík komst betur inn í leikinn á ný og síðustu mínúturnar sóttu heimakonur nokkuð stíft að marki gestanna. Keflvíkingar fengu hornspyrnu í blálokin, boltinn var sendur fyrir markið en Valskonur náðu að koma honum út úr teignum þar sem Elianna Esther Anna Beard náði góðu skoti en boltinn fór hárfínt framhjá og þetta var síðasta tækifærið til að jafna leikinn.

Valskonur náðu að verjast þungri sókn heimaliðsins undir lok leiksins.

Keflavík er enn án stiga eftir fjórar umferðir og vermir neðsta sæti deildarinnar en ef liðið heldur áfram að leika eins og það lék í kvöld verður biðin eftir stigum ekki löng.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum og tók meðfylgjandi myndir. Myndasafn er neðst á síðunni.

Keflavík - Valur (1:2) | Besta deild kvenna 8. maí 2024