Er af hollenska skólanum og mun líklega spila öfugt við íslensku liðin
Hollendingurinn Guyon Philips stýrir knattspyrnuliði RB í ár en hann lék með Víðismönnum árið 2000 og hefur fest rætur á Suðurnesjum. Philips hefur starfað sem umboðsmaður knattspyrnumanna síðustu ár en lagði umboðsmennskuna á hilluna í fyrra og einbeitir sér nú að þjálfun.
Kominn þangað sem hann stefndi
„Ég byrjaði aðeins að þjálfa hjá RB síðasta sumar og nú er ég hættur að vera umboðsmaður svo ég er kominn þangað sem ég stefndi. Ég ætlaði alltaf að snúa mér að þjálfun eftir knattspyrnuferilinn,“ segir Guyon sem öðlaðist UEFA-B þjálfararéttindi árið 2018 þegar hann lék í Hollandi.
„Eftir að ég hætti í Víði fann ég enga þjálfarastöðu en byrjaði aðeins að hjálpa Sigga [Sigurði Ragnari Eyjólfssyni] við þjálfun síðasta sumar, það var rétt áður en hann var rekinn svo það var stutt gaman. Síðan bauðst mér að hjálpa til hjá RB síðsumars og ég tók við þjálfun liðsins í ár. Þannig að ég er ánægður með hvernig málin hafa þróast hjá mér.“
Hvað er planið með RB í sumar?
„Vinna alla,“ svarar Guyon umsvifalaust og skellir upp úr. „Augljóslega erum við ungt lið og það sem ég er að leggja áherslu á er að skipuleggja umgjörðina hjá félaginu, aðeins meiri aga hjá leikmönnum en mér fannst vanta upp á hann á síðasta ári. Svo þurfum við að undirbúa liðið fyrir það „level“ sem er í fjórðu deildinni. Við erum með ágætis blöndu af erlendum leikmönnum og íslenskum, þá ungum strákum héðan af svæðinu. Það eru margir strákar hérna sem lenda í millibilsástandi á milli annars flokks og meistaraflokks og við viljum gefa öllum tækifæri til að spila. Sumir eru tilbúnir að spila strax í sumar en aðrir þurfa kannski eitt ár í viðbót til að öðlast meiri reynslu og verða tilbúnir í liðið.“
Gyon spáir því að RB hafni í efri hluta deildarinnar í ár. „Mínar væntingar eru að liðið verði meðal fimm efstu í haust. Það halda margir að úr því að vorum taplausir í fyrra þá förum við farið strax upp úr þeirri fjórðu, það er ekki svo einfalt. Við erum núna í sterkari deild og fyrsta markmið verður að tryggja okkur í sessi, síðan verður stefnan sett á að fara upp. Auðvitað vill maður vinna alla leiki en þetta er ungt lið í sterkari deild og það er mikilvægt að kunna fótum sínum forráð og taka þetta skref fyrir skref.“
Er með gott lið í höndunum
RB er með gott lið og enn eru leikmenn að bætast í hópinn að sögn Guyon. „Við erum með gott lið og spilum góðan fótbolta. Um helgina kom mjög góður leikmaður frá Póllandi til okkar og við erum að fá sóknarmann sem lék með Kára, þannig að í þessari viku er liðið að verða fullskipað. Ég held að ég hafi ekki náð að stilla upp okkar sterkasta liði ennþá en okkur gekk vel á undirbúningstímabilinu, við spiluðum góða æfingaleiki við lið eins og Víði, KFK og KH en úrslitin í Lengjubikarnum voru svona upp og niður.
Ég hef miklar væntingar fyrir sumarið því við erum með gott lið, ég hef sagt við strákana að þeir einu sem geta unnið okkur erum við sjálfir. Við þurfum að byggja upp seiglu og aga í liðinu, það er stærsta áskorunin fyrir liðið.“
Guyon segir að hann sé með góða fótboltamenn í hópnum og hans fyrsta verk var að bæta leikskipulagið. „Það tók þá smá tíma til að skilja sín hlutverk en allt er að falla í réttar skorður núna og ég vona að það skili okkur hagstæðum úrslitum í sumar.“
Guyon er ánægður með breiddina í hópnum, hann sé t.a.m. með þrjá markverði, og breiddin skili heilbrigðri samkeppni um stöður í liðinu. „Við erum með leikmenn frá fjölmörgum löndum, ég veit ekki einu sinni hve mörgum. Því fylgja áskoranir því þetta eru einstaklingar með ólíkan bakgrunn og það sem virkar á einn getur farið illa í annan – en það sem við erum að reyna að gera hér er að skapa heilbrigt umhverfi fyrir leikmennina. Umhverfi þar sem leikmenn setja hæfilega pressu hver á annan í samkeppni um stöður og hjálpi þannig hver öðrum við að verða betri knattspyrnumenn, betra lið.“
Hvernig fótbolta munum við sjá RB spila í sumar?
„Auðvitað með minn hollenska bakgrunn þá hef ég fengið tækifæri til að vinna með mörgum frábærum þjálfurum á meðan ég var leikmaður sjálfur. Ég vil spila boltanum, byggja upp leikkerfi og þú munt ekki sjá margar langar sendingar fram völlinn hjá okkur. Ég er af hollenska skólanum og mun líklega spila öfugt við íslensku liðin – ekki spila 4-3-3 heldur frekar 3-5-2 kerfi, láta boltann ganga, menn séu hreyfanlegir og byggja upp sóknir og að mönnum líði vel á boltanum. Það verður svo að meta stöðuna í hvert sinn, ef við þurfum að falla til baka eða pressa hátt þá gerum við það.“
Munt þú hugsanlega reima á þig skóna í sumar?
„Nei, sá tími er liðinn. Skrokkurinn leyfir það ekki lengur. Ég spilaði síðasta korterið í leik um daginn og var sprunginn um leið – og hnén mótmæltu þessu í einhverja daga á eftir,“ sagði Guyon og brosti að lokum.