Aðsent

Lokaorð Ragheiðar Elínar- Líf í miðbæinn
Föstudagur 4. maí 2018 kl. 07:00

Lokaorð Ragheiðar Elínar- Líf í miðbæinn

Það eru ekki mörg ár síðan að umræðan um miðborg Reykjavíkur snerist öll um að miðborgin væri deyjandi. Ekkert líf, ekkert fólk og tómt verslunarhúsnæði. Fyrirsagnir á borð við "Miðbærinn er dauður" voru algengar í dagblöðum og viðfangsefnið betri miðbær var áberandi í umræðunni fyrir velflestar borgarstjórnarkosningar.

En ekki lengur. Nú er líf í miðborginni frá morgni til kvölds, alla daga og allan ársins hring. Miðbærinn hefur stækkað og nær nú vestur á Granda og austur fyrir Hlemm. Gömul uppgerð hús með sterka sögu í bland við ný hús laða til sín margvíslega atvinnustarfsemi og gestum fjölgar. Erlendir ferðamenn eru auðvitað í miklum meirihluta gesta miðborgarinnar en með fjölgun þeirra og þar með fjölgun viðskiptavina hefur skapast rekstargrundvöllur fyrir fjölbreyttan atvinnurekstur, veitingastaði og verslanir sem heimamenn fá líka notið. Þannig hafa lífsgæði borgarbúa og okkar hinna sem sækja borgina heim aukist. Það er gaman að rölta um líflega borg og njóta fjölbreytts mannlífs.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það má hrósa borgaryfirvöldum fyrir að hafa lagt metnað í að hlúa að miðborginni og efla hana með þeim tækjum og tólum sem handhafi skipulagsvaldsins hefur úr að spila. Þarna tel ég að Reykjanesbær geti mikið lært og eigi stórt verk fyrir höndum- og mikil tækifæri ef rétt er á málum haldið.

Hafnargatan okkar og miðbæjarsvæðið hefur alla möguleika til að geta laðað til sín fjölbreytta atvinnustarfsemi og iðandi mannlíf. Þrátt fyrir að vera steinsnar frá hliðinu inn í landið- Keflavíkurflugvelli- er Reykjanesbær ekki sérstakur áfangastaður ferðamanna, heldur miklu frekar viðkomustaður ferðamanna á leið sinni inn og út úr landinu. Í tölum frá Ferðamálastofu kemur fram að rúmlega 300.000 erlendir ferðamenn sóttu Reykjanesbæ heim á árinu 2017, u.þ.b. 16-17% af heildarfjölda ferðamanna sem til landsins komu, eða svipað og heimsóttu Húsavík það sama ár, sem er eins og allir vita hinum megin á landinu og eins langt frá "hliðinu" og mögulegt er. Þegar fjöldi innlendra ferðamanna er skoðaður hallar jafnvel meira á okkur hér, en einungis um 28.000 innlendir ferðamenn heimsóttu Reykjanesbæ 2017.

Við hljótum að geta gert betur- síldartorfan syndir framhjá okkur. Og þannig erum við ekki að ná að njóta afraksturs fjölgunar ferðamanna í formi lifandi og fjölbreytts miðbæjar fyrir okkur íbúana. Þarna eru óþrjótandi tækifæri og þarf samstillt átak og skýra stefnu. Hvernig viljum við hafa bæinn okkar?

Ég vil fallegan bæ þar sem gott er að búa og sem eftirsótt er að heimsækja. Þar sem hlúð er að menningarverðmætum og söguarfi en það er einmitt það sem innlendir og erlendir ferðamenn sækjast eftir að skoða. Þar sem heildarhugsun ríkir í skipulagsmálum og metnaður ríkir fyrir því að byggja upp ásamt því að leggja rækt við hið gamla. Þannig sköpum við líf - líf í miðbæinn okkar.