Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

Úr bókunarþjónustu í barnabókaútgáfu
Arnar og Ívar Rafn með fyrstu bókina.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 15. maí 2020 kl. 07:58

Úr bókunarþjónustu í barnabókaútgáfu

Tveir ungir Suðurnesjamenn sem reka leitarvél í samvinnu við bílaleigur hafa brugðist við algeru stoppi í rekstrinum með því að fara nýjar leiðir

Tveir ungir Suðurnesjamenn sem reka bókunarþjónustufyrirtæki hafa brugðist við algeru stoppi í rekstrinum með því að fara nýjar leiðir. Þeir Ívar Rafn Þórarinsson og Arnar Stefánsson eru komnir í barna-bókaútgáfu en þeir hafa síðustu fjögur árin rekið ferðaþjónustufyrirtækið www.northbound.is sem er miðlari á bílaleigumarkaðinum.

„Þetta er í raun svipað viðskiptamódel og booking.com. Við rekum leitarvél þar sem fólk getur leitað að bílaleigubílum og borið saman verð hjá rúmlega þrjátíu bílaleigum sem við erum í samstarfi við á Íslandi. Fólk getur svo bókað bíl í gegnum okkur og við fáum söluþóknun af því. Fyrirtækið er búið að vera starfandi frá 2016 og við höfum upplifað mikinn vöxt síðan þá en líka áföll eins og fall WOW air og nú COVID-19. Staðan í dag er þannig að það er nánast ekkert að bókast,“ segja þeir félagar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Leitað nýrra leiða

Þeir segjast hafa brugðist við algeru tekjufalli með þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðið upp á en það dugar ekki til og því var leitað nýrra leiða í rekstrinum en á allt öðru sviði.

„Við erum búnir að gera allt sem við getum til þess að bjarga fyrirtækinu, draga úr öllum kostnaði, nýta hlutabótaleiðina ásamt öðrum úrræðum. Það góða við okkar stöðu er að við skuldum ekkert en félagið hefur skilað hagnaði alveg frá byrjun. Í dag er í raun bara verið að afgreiða afbókanir og tilfærslur á bókunum á aðrar dagsetningar. Í stað þess að sitja bara hér og bora í nefið á meðan ferðaþjónustan er í lamasessi þá ákváðum við að gera eitthvað annað sem hægt væri að selja hérna á Íslandi og erlendis.“

Sérhönnuð barnabók

Útkoman er Sögubók.is en það er vefur þar sem fólk getur hlaðið inn mynd af barni og keypt sérhannaða bók þar sem andlitið á barninu er blandað inn í persónur í bókinni. „Við erum með eina bók tilbúna núna en það er stafrófsbók fyrir krakka á leikskólaaldri. Við Arnar eigum báðir börn á leikskólaaldri og það er búið að vera virkilega gefandi að getað búið til bók fyrir krakkana og komið með hana heim og lesið fyrir svefninn, þetta er klárlega uppáhaldsbókin á heimilinu í dag. Ef allt gengur vel þá er ætlunin er að að gera að minnsta kosti fimm sögubækur á íslensku og svo í framhaldinu munum við þýða þær á nokkur önnur tungumál og selja þær fyrst á Norðurlöndunum og svo annars staðar í Evrópu.

– Sjáiði fyrir ykkur að ná í einhverjar tekjur með þessari bókaútgáfu?

„Við erum að reyna að halda okkur plúsmegin með fyrstu bókinni, það er ekki sjálfgefið þegar allur kostnaðurinn er tekinn með. Svo er þetta líka alveg nýr vettvangur fyrir okkur og við erum að læra hvar við getum sparað kostnað en við viljum gefa út gæðavöru. Við gerum ekki ráð fyrir því að fyrsta bókin verði arðbær, frekar ætlum við að leggja það sem kemur til baka inn aftur í nýja bók til þess að bæta við úrvalið okkar,,“ segja þeir Ívar Þór og Arnar.

sogubok.is