Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Yfir sex tonn á dag og menn sáttir
Föstudagur 29. september 2023 kl. 06:00

Yfir sex tonn á dag og menn sáttir

Togarinn Sóley Sigurjóns GK, sem Nesfiskur ehf. á og gerir út, hefur síðan í apríl á þessu ári verið að landa á Siglufirði en togarinn er búinn að vera að veiða rækju síðan þá. Nokkuð vel hefur gengið hjá togaranum og er rækjuaflinn hjá honum kominn í tæp 700 tonn.

Togarinn veiðir ekki með skilju og er því þó nokkur meðafli með rækjunni. Allri rækjunni er ekið til Hvammstanga en þar á Nesfiskur hlut í rækjuverksmiðjunni Mel-eyri ehf. sem á sér langa sögu sem rækjuverksmiðja hér á landi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Núna er togarinn kominn suður og má því segja að rækjuvertíðinni sé lokið. Vel hefur gengið að veiða núna í september og hefur togarinn landað 237 tonnum í þremur löndunum og mest 91 tonn. Af þessum afla er rækja 85 tonn og þorskur 148 tonn. Öllum þorski og mestöllum meðafla sem togarinn landar er ekið suður til Sandgerði og Garðs til vinnslu þar.

Á Siglufirði eru reyndar tveir bátar á veiðum sem Stakkavík ehf. á og gerir út. Það eru Katrín GK sem hefur landað 32,3 tonnum í fimm róðrum, mest 8,1 tonn og Hópsnes GK sem hefur landað 58,8 tonnum í tíu róðrum, mest 9,4 tonn í róðri.

Eins og komið hefur fram hérna í þessum pistlum mínum þá er þessi septembermánuður vægast sagt mjög öðruvísi gagnvart línuveiðum hjá minni bátunum, því það var vanalega þannig að þeir fóru svo til allir í burtu og enginn bátur var á línu frá Suðurnesjum í september og október – en núna breyttist það ansi mikið.

Það má í raun segja að Helgi og áhöfn hans á Margréti GK hafi brotið ísinn með því að róa í ágúst frá Sandgerði og gekk mjög vel, landaði yfir 100 tonnum í ágúst. Áfram hélt báturinn veiðum og hefur fiskað ansi vel núna í september og er kominn með 85 tonn í tólf róðrum.

Þessi góði afli Margrétar GK dró Jón Ásbjörnsson RE að sér sem hefur verið á veiðum frá Sandgerði og landað þar 55 tonnum í níu róðrum. Óli á Stað GK, sem Stakkavík ehf. gerir út, hafði haft þá venju undanfarin ár að báturinn fór alltaf norður og var fyrir norðan á haustin en núna ákvað Óðinn skipstjóri að prófa fyrir sunnan og sjá hvernig gengi.

Ef báturinn myndi ná yfir sex tonna afla á dag væri það gott og menn sáttir. Báturinn hóf veiðar í Sandgerði en færði sig síðan til Grindavíkur og hefur landað 78 tonn í tólf róðrum og mest 10,8 tonn í róðri, meðalaflinn um 6,5 tonn sem er ansi gott.

Línubáturinn Sævík GK hefur, eins og Óli á Stað GK, líka verið fyrir norðan undanfarin haust en hann kom suður um miðjan september og hefur aldrei áður komið svona snemma suður. Sævík GK hefur landað 75 tonnum í tólf róðrum og af þeim afla eru nítján tonn sem landað er í Grindavík en þegar þessi pistill er skrifaður þá var báturinn á leið í Sandgerði.

Samhliða þessu hefur bátur frá Snæfellsnesi, Særif SH, verið á veiðum bæði fyrir utan Sandgerði og Grindavík og hefur Særif SH landað alls 147 tonnum í aðeins níu róðrum, mest 23,5 tonn í róðri, en báturinn leggur stundum tvær lagnir af línu í sama róðrinum. Ef við skoðum nánar aflann hjá Særifi SH þá hefur 32 tonnum verið landað í Grindavík og 41 tonni í Sandgerði, restinni er landað í Þorlákshöfn. Þessi góði afli bátanna hefur þýtt það að líf er í höfnunum í Sandgerði og Grindavík og það er gleðilegt.

Reyndar, fyrst ég er að skrifa um línubátana, þá hafa stóru línubátarnir líka landað meiru núna í Grindavík en þeir hafa gert en þeir hafa meðal annars verið á veiðum utan við Sandgerði og til að mynda hefur Sighvatur GK veitt 341 tonn í þremur róðrum og öllum aflanum landað í Grindavík.

Þessi pistil er skrifaður frá Grundarfirði og loksins skrifa ég pistil í sjávarþorpi eins og á Suðurnesjum og það er þó nokkuð mikil tenging milli útgerðar á Suðurnesjunum og Grundarfjarðar, t.d. landa stóru línubátranir frá Grindavík af og til í Grundarfirði. Sóley Sigurjóns GK landar stundum þar og Stakkavík ehf. í Grindavík gerði út bát í ellefu ár og hét sá bátur Gulltoppur GK. Sá bátur var gerður út í mörg ár frá Grundarfirði og hét þá Farsæll SH. Núna heitir þessi bátur Ísey EA og er skráður í Hrísey. Báturinn var á dragnót og réri meðal annars töluvert frá Sandgerði og Grindavík enda var mjög þekktur dragnótaskipstjóri á honum sem heitir Grétar Þorgeirsson en hann var lengi skipstjóri á Farsæli GK frá Grindavík.