Kalka
Kalka

Pistlar

Togarinn skráður með heimahöfn á Selfossi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 27. maí 2022 kl. 12:53

Togarinn skráður með heimahöfn á Selfossi

Ef sumarið verður jafn gott og veðurfarið er búið að vera núna í maí, þá verður gleði í hverjum bæ. Í það minnsta skárra en sumarið 2021, endalausar rigningar.

Núna er ég staddur á Eyrarbakka og ég hef haft það fyrir venju að finna einhverja tengingu Suðurnesja við þá staði sem ég er staddur á hverju sinni. Eyrarbakki og Stokkseyri eru bæir skammt frá Þorlákshöfn og eru síðustu sjávarþorpin alla leið til Hornafjarðar. Reyndar er enginn útgerð á þessum stöðum núna árið 2022 – og ekki einu sinni fiskvinnsla.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Það er þó hægt að finna eina nokkuð merkilega tengingu Eyrarbakka við Suðurnesin. Hún er sú að togari var gerður út frá þessum tveimur bæjum. Reyndar var togarinn skráður með heimahöfn á Selfossi – og þar er nú ekki einu sinni höfn.

Hvernig stóð þá á því að togari var gerður út frá þessum bæjum og af hverju var hann með heimahöfn á Selfossi – og hver er tengingin við Suðurnesin?

Jú, upp úr 1975 var samið við pólska skipasmíðastöð um smíði á þremur 500 tonna togurunum. Þetta voru togaranir Klakkur VE (sem ennþá er til árið 2022 og heitir ennþá Klakkur), Ólafur Jónsson GK frá Sandgerði og síðan togari sem hét Bjarni Herjólfsson ÁR.

Bjarni Herjólfsson ÁR var í eigu frystihúsanna á Stokkseyri og Eyrarbakka en skráður í heimahöfn á Selfossi og ástæðan var sú að skrifstofa útgerðarinnar sem átti togarann var á Selfossi. Bjarni Herjólfsson ÁR kom aldrei til hafnar á þessum tveimur stöðum enda hvorki höfn fyrir togarann né nægilegt dýpi. Togarinn landaði þá afla sínum í Hafnarfirði og Þorlákshöfn og var aflanum ekið á Eyrarbakka og Stokkseyri. Bjarni Herjólfsson ÁR kom árið 1977 og var seldur 1985 til Akureyrar og fékk þar nafnið Hrímbakur EA. Þessi togari var systurskip Ólafs Jónssonar GK sem var í eigu Miðness HF frá Sandgerði. Ólafur Jónsson GK var lengdur árið 1996 og seinna meir var togaranum breytt í frystitogara. Gamli Ólafur Jónsson GK er ennþá til og heitir Viking og er gerður út frá Rússlandi.

Kristinn Jónsson, eða Kiddi eins og hann var og er kallaður, var skipstjóri á Ólafi Jónssyni GK og togarinn var mjög atkvæðamikill á úthafskarfaveiðunum. Árið 1994 lenti Kiddi og áhöfn hans heldur í mokveiði og það miklu moki að líklegast settu þeir Íslandsmet. Togarinn kom til Sandgerðis með fullfermi, eða 300 tonn, eftir aðeins sex daga höfn í höfn en hafa ber í huga að togarinn fór lengst 530 sjómílur út frá Sandgerði. Veiðidagarnir voru aðeins þrír og var aflinn því um 100 tonn á dag og stærsta holið var 75 tonn.

Það má geta þess að árið 1994 veiddi Ólafur Jónsson GK þrjú þúsund tonn af úthafskarfa og var aflahæsti ísfiskstogarinn á úthafskarfanum á landinu það árið.

Myndin sem fylgir með er tekin í Sandgerði og þar sést Ólafur Jónsson GK eftir breytingar. Framan við hann er hinn togari Miðness, Sveinn Jónsson KE. Reynir Sveinsson, faðir minn, tók myndina.

Núna er enginn úthafskarfi veiddur og Bjarni Herjólfsson ÁR er ekki til því hann endaði sögu sína árið 2007 í brotajárni.

Aðeins að nútímanum. Netabáturinn Grímsnes GK er kominn á rækjuveiðar en hann var síðast á rækjuveiðum árið 2016. Báturinn fær úthlutað rækjukvóta ár hvert og núna er kvótinn á bátnum um 88 tonn af rækju og Meleyri á Hvammstanga vinnur aflann af Grímsnesi GK. Meleyri er í eigu Nesfisks í Garðinum. Ráðgert er að Grímsnes GK verði á rækjuveiðum fram í júlí en fari þá á ufsaveiðar í net.