Pistlar

Sjórinn fullur af fiski sem Hafró sér ekki
Föstudagur 21. apríl 2023 kl. 06:13

Sjórinn fullur af fiski sem Hafró sér ekki

Mjög rólegur mánuður, enda hrygningarstoppið í gangi, og þeir bátar sem hafa verið að veiðum, til að mynda línubátarnir, hafa þurft að fara út fyrir bannsvæðið og það er nokkuð langt út.

Ef við lítum aðeins á nokkra báta þá eru það helst línubátarnir sem hafa verið á veiðum og Sighvatur GK er sem fyrr aflahæstur af stóru bátunum og kominn með 257 tonn í tveimur róðrum.  Fjölnir GK með 222 tonn, líka í tveimur róðrum. Af minni bátunum er Geirfugl GK með 29 tonn í sex róðrum. Auður Vésteins SU er með 27 tonn í þremur. Gísli Súrsson GK með 25 tonn í þremur. Allir að landa í Grindavík. Í Sandgerði er Margrét GK með 34,5 tonn í fjórum, Hópsnes GK með 34 tonn í sex og Særif SH með 53 tonn í þremur. Allir þessir bátar hafa verið að veiðum nokkuð langt frá Sandgerði og meðal annars úti við Eldey.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Netabátarnir réru þangað til þeir þurftu að stoppa en í stoppinu sjálfu voru tveir stórir netabátar að veiðum utan við Suðurnesin. Þetta voru tveir af sex netabátum sem eru í netarallinu sem fram fer í apríl ár hvert. Þórsnes SH frá Stykkishólmi var við sitt netarall á Selvogsbanka og hefur landað 171 tonni í ellefu róðrum í Þorlákshöfn. Saxhamar SH var með svæðið frá Reykjanesvita og inn í Faxaflóa. Byrjaði á að landa í Reykjavík en kom síðan til Sandgerðis og landaði þar. Heildaraflinn hjá Saxhamri SH var 175 tonn í átta róðrum og þar af var landað í Sandgerði 91 tonni í fjórum róðrum. Þessi afli var veiddur í netin á slóðum utan við Sandgerði og áleiðis að Stafnesi og Sandvík. Verður fróðlegt að sjá hvort þessi góða veiði bátanna verði þannig að það verður aukning á þorskkvóta, því einhverra hluta vegna er sjórinn fullur af fiski og sérstaklega þorski en Hafró virðist ekki finna hann. Í það minnsta hefur þorskkvótinn verið skorinn niður undanfarin ár, þvert á það sem raunverulega er að gerast í kringum landið.

Nú er þetta líka komið þannig að búast má við að fyrirtækin taki ansi löng stopp og til að mynda hefur mér borist til eyrna að dragnótabátarnir hjá Nesfiski muni veiða út maí en síðan stoppa í níu vikur. Það þýðir að einungis þrjú skip munu vera á veiðum fyrir Nesfisk í sumar, Sóley Sigurjóns GK sem verður á rækjuveiðum og er byrjuð á rækjuveiðum fyrir norðan, Margrét GK, sem er á línuveiðum, og frystitogarinn þeirra, Baldvin Njálsson GK. Reyndar var gerð ansi áhugaverð tilraun hjá þeim varðandi Margréti GK sumarið 2022 en þá var bátnum haldið til veiða frá Sandgerði yfir sumartímann og sú tilraun gekk mjög vel. Veiði bátsins var mjög góð en hann var við veiðar á hefðbundinni slóð utan við Sandgerði og vonandi verður framhald á því að báturinn rói frá sinni heimahöfn á línu í sumar.

Það sama verður svo til uppá teningnum hjá fyrirtækjunum í Grindavík. Þar munu til að mynda stóru línubátarnir hjá Vísi ehf. stoppa í júlí og fram í ágúst. Reyndar hafa þeir hangið í keilu eitthvað fram í júní. Í fyrrasumar var keiluveiðin reyndar lítil hjá stóru línubátunum.

Talandi um línu og Vísisbátana en bátarnir hjá Vísi eru allir fagurgrænir og það er líka stóri flotti línubáturinn Seir M-130-H, sem er 58 metra línubátur frá Noregi, smíðaður árið 2019.  þessi bátur var við veiðar djúpt úti frá Sandgerði núna 13. og 14. apríl en var við veiðar inn í hólfi þar sem að allar veiðar voru bannaðar. Stjórnstöð Landhelgisgæslunar sá bátinn í eftirlitskerfum og var báturinn kallaður upp og kannað hvort þeir væru við veiðar. Jú, það reyndist vera og var bátnum skipað að sigla til Reykjavíkur þar sem að skýrsla var tekin af skipstjóra og stýrimanni. Líklega má telja að upplýsingar hafi ekki borist til skipstjórnar manna á Seir og því fóru þeir grunlausir til veiða þarna djúpt út frá Sandgerði en vissu ekki að þeir voru að veiða á bannsvæði, sem sé ólöglegar veiðar, og skipstjórinn mun fá sekt útaf þessu. Eftir þetta þá fór báturinn til veiða og þegar þetta er skrifað þá er hann við veiðar á Reykjaneshrygg.