Rafiðnaðarfélag
Rafiðnaðarfélag

Pistlar

Mars alltaf stærsti aflamánuðurinn
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 24. mars 2023 kl. 06:27

Mars alltaf stærsti aflamánuðurinn

Marsmánuðurinn er kominn nokkuð langt og ef horft er aftur í tímnn, jafnvel farið alla leið aftur til ársins 1940, þá var það þannig að allar vetrarvertíðir svo til frá 1940 og alveg vel fram yfir árið 2000, að marsmánuður var alltaf stærsti aflamánuðurinn. 

Mikill fjöldi báta var þá að róa frá stöðum eins og Sandgerði, Keflavík, Grindavík og jafnvel Vogum. Allir áttu það sameiginlegt að veiða vel þennan mánuð sem ber heitið mars.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Núna, árið 2023, er nokkuð skrítið ástand á ferðinni. Jú, bátunum hefur fækkað alveg gríðarlega, það er t.d. enginn bátur í Vogunum núna, aðeins einn bátur í Keflavík, Halldór Afi GK, og fáir bátar í Njarðvík.

Eitt hefur þó ekki breyst en það er áfram þessi mokveiði sem sagan sýnir okkur að hafi verið í marsmánuði tugi ára aftur í tímann. Það sem er kannski öðruvísi núna er að mokveiðin er svo mikil og það gengur hratt á kvótann hjá bátunum. Núna eru fyrirtækin farin að setja hálfgert hámark sem hver bátur má veiða, til þess að treina kvótann í það minnsta fram á sumar, til að mynda þá eru Einhamarsbátarnir komnir með 60 tonna skipstjórnarkvóta en á bátunum hjá þeim eru tvær áhafnir og það þýðir að hver bátur má veiða í kringum 120 tonn á mánuði.

Margrét GK, sem er í eigu Nesfisks í Sandgerði, missti um 380 tonna kvóta um daginn en kvótinn, sem Stakkavík ehf. á, var geymdur á Margréti GK því ekki var hægt að hafa kvótann á bátum hjá Stakkavík vegna þess að þá voru þeir yfir kvótaþakinu. Þessi 380 tonna kvóti fór yfir á Óla á Stað GK.

Fleira hefur gerst hjá Nesfiski því núna er tímabundið búið að leggja Pálínu Þórunni GK en báturinn liggur í Hafnarfirði og landaði þar síðast 20. febrúar síðastliðinn. Þetta kemur kannski ekki á óvart því kvóti fyrirtækisins dugar vel á bátana en eftir að nýi Baldvin Njálsson GK kom þá tekur sá togari mestallan kvóta sem fyrirtækið á vegna þess hversu öflugur hann er.

Kvótinn sem er á Pálínu Þórunni GK hefur verið fluttur yfir á Sóley Sigurjóns GK, Sigurfara GK og Benna Sæm GK.

Veiðin hjá Nesfisksbátunum er búin að vera mjög góð núna í mars. Sigurfari GK er kominn með 146 tonn í ellefu róðrum, Benni Sæm GK með 117 tonn í tíu, Siggi Bjarna GK mun líklega mega byrja róa í enda mars eða í byrjun apríl, hann var sviptur veiðileyfi í fjórar vikur.

Aðrir dragnótabátar eru Maggý VE með 93 tonn í níu róðrum og Aðalbjörg RE með 31 tonn í sjö.

Línubátar sem hafa verið að róa frá Grindavík hafa ekki þurft að fara langt út því ansi góð veiði hefur verið hjá þeim rétt í kringum Hópsnes og út með ströndinni að Reykjanesvita. Auður Vésteins SU lenti í mokveiði rétt utan við Hópsnes og landaði tvisvar sama daginn úr sama róðrinum. Kom samtals með 31 tonn í land.

Báturinn færði sig síðan utan við Sandgerði og náði þar í 15 tonn en á miðunum utan við Sandgerði er búið að vera vægast sagt mjög stór floti, t.d. flestir stóru línubátanna frá Grindavík, sem og stóru línubátarnir frá Rifi, eins og Örvar SH, Tjaldur SH og Rifsnes SH. Sömuleiðis hefur netabáturinn Þórsnes SH verið með netin sín þarna utan við Sandgerði. 

Loðnan, sem var þarna yfir öllu snemma í mars, hefur fært sig í burtu og er komin meira í vestur, í átt að Snæfellsnesinu. Það þýðir að línubátarnir hafa geta náð í góðan afla. Það er vanalega þannig að þegar loðnan gengur yfir þá hrynur línuveiðin – nema hjá þeim bátum sem geta beitt loðnu en vegna þess að engri loðnu er landað á Suðurnesjum þá er enga loðnu að fá til beitu. Líka það að flestir bátanna eru með beitningavélar, þær taka ekki loðnuna. Svo til þeir línubátar sem geta róið með loðnu og beitt á línu eru bátar sem róa með bala, því þá er hægt að beita loðnuna handvirkt í landi.