Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Einstaklingsútgerðir að hverfa
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 23. desember 2022 kl. 07:46

Einstaklingsútgerðir að hverfa

Það styttist óðfluga í jólin og ennþá ber ekkert á snjónum sem við öll viljum hafa yfir hátíðirnar.  Mun jólalegra að hafa hvít jól en rauð jól.

Tíðin núna í desember er búin að vera óvenjulega góð og eins og sagt var frá í síðasta pistli þá hafa handfærabátarnir getað róið núna í desember og vekur það nokkra athygli. Þegar þessi pistill er skrifaður er þónokkur fjöldi af færabátum við veiðar í Röstinni. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einn af þeim bátum sem þarna eru við veiðar er Guðrún GK sem Sævar Baldvinsson er skipstjóri á. Sævar er búinn að eiga feikilega gott ár á færunum, það gott að núna er hann næstaflahæsti handfærabátur landsins – og er ekki nema um sextán tonnum á eftir báti sem er gerður út frá Hornafirði. Sá bátur heitir Sævar SF.

Guðrún GK er búin að róa nokkuð duglega núna í desember á meðan að Sævar SF er ekki eins mikið búinn að róa og því verður fróðlegt að sjá hvort Sævar nái Sævari SF.

Annars eru svo til flestir bátanna komnir suður. Einhamarsbátarnir Gísli Súrsson GK og Vésteinn GK eru komnir suður – og Hulda GK. Eftir eru þá Geirfugl GK, Óli á Stað GK og Gulltoppur GK en þeir eru allir fyrir norðan.

Veiði línubátanna er búin að vera mjög góð, t.d. er Dúddi Gísla GK með 33 tonn í sex róðrum,  Sævík GK 50,2 tonn í sjö, landað í Sandgerði og Grindavík, Margrét GK 50 tonn í átta í Sandgerði, Daðey GK 46 tonn í sex í Grindavík og Sandgerði, Hulda GK fimmtán tonn í fjórum, Hópsnes GK 22 tonn í fimm, Geirfugl GK 17 tonn í fjórum á Siglufirði, Katrín GK 14,3 tonn í þremur í Sandgerði og Gulltoppur GK tólf tonn í þremur á Skagaströnd.

Núna er Erling KE hættur á netaveiðum og núverandi Erling KE hefur lokið hlutverki sínu fyrir Saltver ehf. – og í raun hérna á landinu því líklega fer hann í brotajárn. Á meðan verður nýi Erling KE gerður klár til veiða en hann mun hefja veiðar eftir áramótin og samkvæmt því sem ég hef heyrt þá líst mönnum mjög vel á nýja bátinn.

Nýi Erling KE er reyndar um sex metrum styttri en núverandi Erling KE en á móti kemur að hann er þremur metrum breiðari og dekkið er á tveimur hæðum. Sömuleiðis þá eru íbúðir og matsalur mjög rúmgóðar og stórar.

Grímsnes GK er ennþá að eltast við ufsann og kom með 12,2 tonn til Þorlákshafnar í einni löndun. Maron GK með 16,7 tonn í þremur og Halldór Afi GK 12,1 tonn í þremur og mest 9,1 tonn sem er nú svo til fullfermi hjá bátnum.

Maron GK og Halldór Afi GK hafa að mestu verið með netin sín við Garðskagavita og þar hefur netabáturinn Kap VE verið líka við veiðar en hann veiðir í sig og siglir svo til Vestmannaeyja með aflann. Kom þangað með 60 tonn í einni löndun. Kap VE hefur reyndar siglt inn til Keflavíkur og legið og lesendur hafa örugglega tekið eftir Kap VE þar.

Eitt sem vekur athygli núna undir lok ársins, og það er kannski ekki það skemmtilegasta að horfa á, en svo til allar einstaklingsútgerðir eru að hverfa. Núna er aðeins einn línubátur að róa frá Suðurnesjum sem ekki tengist stóru útgerðinum. Er það Dúddi Gísla GK sem er í eigu fjölskyldufyrirtækis í Grindavík.

Það eru jú bátar á færum en enginn á línu sem mætti kalla einstaklings- eða fjölskylduútgerðir, þetta er mikil breyting frá því sem var eitt sinn.

Þetta er síðasti pistill fyrir jólin og vil ég því óska lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi nýs árs.