Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Þessi jól verða samskiptin líklega í gegnum tölvuna
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 24. desember 2020 kl. 07:07

Þessi jól verða samskiptin líklega í gegnum tölvuna

Kristrún Davíðsdóttir er eiginkona Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum á Vatnsleysuströnd.

„Aðventan fer í að skreyta á hefðbundinn hátt, setja upp jólaljós og fleira í þeim dúr. Engar sérstakar hefðir eru hjá okkur umfram það sem hefðbundið getur talist. Það besta við jólin er samveran með barnabörnunum og að fylgjast með gleði þeirra og tilhlökkun. Við eigum tvo syni, annar þeirra býr á Englandi og hinn á Íslandi. Þetta árið verðum við hjónin þó að öllum líkindum á Spáni um jól og áramót og munum því njóta þess að vera í samskiptum við þau í gegnum tölvuna,“ segir Kristrún Davíðsdóttir, eiginkona Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum á Vatnsleysuströnd.

„Við erum vön að hittast í báðum stórfjölskyldunum en nú verða engin stórfjölskyldujólaboð vegna Covid. Í gegnum árin höfum við eignast jólaskraut og muni sem við notum aftur og aftur. Jólabarnið í mér gerir því helst vart við sig með því að halda í þessar góðu hefðir sem skapast með árunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er gaman að sjá hversu margir bæjarbúar eru duglegir að skreyta hjá sér, það er sannarlega upplyfting í skammdeginu. Börnin í skólanum og leikskólanum sáu um að kveikja á jólatrénu í Aragerði Vogum í ár, það heppnaðist vel og er dæmi um góða lausn þegar samkomubann ríkir.“

Uppáhaldsjólasmákökur fjölskyldunnar hafa verið Sörur.

Sörur (200 kökur)

Botnar

6 pokar möndlur með hýði (600 g)

1 pakki flórsykur (500 g)

11 eggjahvítur (eða 10-12, allt eftir stærð eggjanna)

Aðferð:

Möndlur malaðar í möndlukvörn (ekki í matvinnsluvél) og flórsykur sigtaður út í. Eggjahvítur stífþeyttar og blandað saman við möndlur og flórsykur. Deigið sett með teskeið á bökunarpappír og bakað í u.þ.b. 10 mín. (allt frá 8 upp í 12 mín, það fer eftir ofni og því hvort blástur er notaður). Hitastigið er 180° en 160° með blæstri.

Krem

11 eggjarauður (10–12, allt eftir stærð)

2¼ dl sykur

2¼ dl vatn

1 stk smjör (500 g)  mjúkt

3 msk kakó

1 msk neskaffi

Aðferð:

Sjóðið saman vatn og sykur þar til það fer að líkjast sírópi (taumarnir lafa út frá skeiðinni). Þeytið eggjarauður og hellið sírópi út í í mjórri bunu. Þeytið nú vel og lengi, eða þar til hræran hefur kólnað og er orðin létt og ljós. Þá er smjörinu bætt út í og að lokum er kakó og kaffi sigtað saman við.

Súkkulaðihjúpur

8–10 pokar dökkt Odense-hjúp­súkkulaði (800-1000 gr)

Kreminu er loks smurt á kökubotnana og þeir kældir vel, til dæmis í frysti. Að lokum er kremhliðinni dýft í bráðið hjúp­súkku­laði, sem má alls ekki vera of heitt, heldur rétt volgt. Kökurnar geymast best í frysti, eða í góðum kæli.