Mannlíf

Þakklát fyrir sterk viðbrögð við viðtali
Sólný Pálsdóttir.
Miðvikudagur 12. nóvember 2014 kl. 12:43

Þakklát fyrir sterk viðbrögð við viðtali

Saga Hilmis hefur hreyft við fjölda fólks.

„Ég er þakklát fyrir þau viðbrögð sem umfjöllunin um Hilmi og lífið með honum hefur vakið að undanförnu. Þegar ég samþykkti að hitta Olgu Björt, blaðamann Víkurfrétta, og deila reynslu minni af því að eignast dreng með Downs heilkenni grunaði mig ekki að umfjöllunin ætti eftir að vekja svona sterk viðbrögð,“ segir Sólný Pálsdóttir, en á fimmta þúsund hafa séð sjónvarpsviðtalið við Sólnýju og vefútgáfu viðtalsins sem birt var í síðasta tölublaði.

Public deli
Public deli

Hilmir Sveinsson.

Síðan viðtalið birtist hefur Sólný fengið fjölda símtala, kveðja og tölvupósta og hitt fólk sem hefur verið ánægt með að fá innsýn inn í daglegt líf drengs með Downs. „Fólk hefur deilt með mér sögum af sínu lífi og fyrir það er ég þakklát því það er gott að vita að maður er ekki einn. Það er mikilvægt að fá tækifæri til að deila reynslu sinni með öðrum því þannig þroskast maður og leggur um leið sitt af mörkum til að aðrir sjái lífið í lit. Víkurfréttir eiga hrós skilið fyrir að hafa unnið þessa umfjöllun af alúð og einlægni og þetta er dæmi um hvernig hægt er að hafa áhrif með því að vinna saman.“

Sólný ásamt Fjölni og Hilmi.

Í viðtalinu gaf Sólný mikið af sér og það var á persónulegri nótum en lesendur eiga að venjast í Sjónvarpi Víkurfrétta. Hún segir að því miður njóti njóti fatlaðir ekki sömu réttinda og aðrir í þjóðfélaginu og því þurfi að breyta. „Við getum haft áhrif með því einfaldlega að byrja á okkur sjálfum með því að skoða viðhorf okkar og samskipti við annað fólk. Það er ef til vill dálítið kaldhæðnislegt að á sama tíma og ég er ræða orð eins og mongólíti og þroskaheftur við syni mína er vinsælasta lagið á heimilinu titillag kvikmyndarinnar París Norðursins. Fjölnir, fjögurra ára sonur minn, situr við hliðina á Hilmi og syngur hástöfum með viðlaginu „Rósi var örugglega vangefinn“. Við þurfum að fræðast og fræða aðra, þannig minnkum við fordóma og lærum að fagna fjölbreytileikanum,“ segir Sólný.