Vörumiðlun
Vörumiðlun

Íþróttir

Stjarnan jafnaði einvígið við Keflavík
Birna Valgerður Benónýsdóttir fór fyrir Keflavík í tapinu gegn Stjörnunni. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 2. maí 2024 kl. 09:08

Stjarnan jafnaði einvígið við Keflavík

Annar leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfuknattleik var leikinn í Garðavbæ í gær. Stjörnukonur höfðu yfirhöndina lengst af en þrátt fyrir ágætis endurkomu Keflavíkur í fjórða leikhluta náði Stjarnan að landa sigri í lokin. Staðan er því jöfn (1:1) í einvígi liðanna en fyrra liðið til að vinna þrjá leiki fer í úrslit.

Stjarnan - Keflavík 85:82

(20:23 | 27:19 | 16:14 | 22:26)

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Daniela Wallen lét óvanalega lítið fyrir sér fara í gær og var einungis með átta stig. Hún var hins vegar með flest fráköst allra, þrettán talsins.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta höfðu Keflvíkingar þriggja stiga forskot á heimakonur en Stjarnan tók völdin í öðrum leikhluta og sneru dæminu við. Keflavík var fimm stigum undir í hálfleik.

Í þriðja leikhluta gekk liðunum ekkert að skora en Stjörnukonur juku forskotið engu að síður um tvö stig og höfðu því sjö stiga forskot á Keflvíkinga fyrir síðasta leikhlutann (63:56).

Keflvíkingar mættu grimmar inn í fjórða leikhluta og eftir þriggja og hálfs mínútna leik setti Birna Valgerður Benónýsdóttir niður tvö vítaköst, það fyrra til að jafna leikinn og það síðara til að koma Keflavík yfir (65:66).

Liðin skiptust á forystunni en þegar þrjár mínútur voru til leiksloka setti Elisa Pinzan þrist niður og Keflvík komið í fjögurra stiga forystu (74:78). Daniela Wallen jók forskotið í sex stig skömmu síðar (74:80) en Stjörnukonur svöruðu með þristi og minnkuðu muninn í eitt stig með stigum úr vítaköstum (79:80).

Elisa Pinzan kom Keflavík í þriggja stiga forystu að nýju (79:82) en Stjörnukonur skoruðu sex síðustu stigin í leiknum og fögnuðu sigri að lokum (85:82).

Stig Keflavíkur: Birna Valgerður Benónýsdóttir 21 stig, Sara Rún Hinriksdóttir 16 stig, Anna Ingunn Svansdóttir 14 stig, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 11 stig, Elisa Pinzan 9 stig, Daniela Wallen 8 stig og Lovísa Sverrisdóttir 3 stig.