Íþróttir

Nacho Heras með tvö í Eyjum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 30. júlí 2022 kl. 16:34

Nacho Heras með tvö í Eyjum

Keflvíkingar héldu til Eyja í dag þar sem þeir mættu ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu. Keflavík, sem hafði tapað síðustu tveimur leikjum, lenti tvívegis undir en Spánverjinn Nacho Heras reyndist bjargvættur Keflvíkinga og tryggði þeim jafntefli.

Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið eftir fína sókn. Rúnar Gissurarson, markvörður Keflavíkur (Sindri Kristinn Ólafsson tók út leikbann), varði þá vel en sókn Eyjamanna hélt áfram og Rúnar gat ekki séð við þrumuskoti sem hafnaði í netinu (9').

Skömmu fyrir leikhlé tók Rúnar Þór Sigurgeirsson aukaspyrnu á fjærstöng, þar stökk Nacho Heras manna hæst og skallaði inn jöfnunarmark (43').

Eyjamenn komust aftur yfir þegar Sindri Þór Guðmundsson braut af sér upp við vítateig Keflvíkinga. ÍBV fékk aukaspyrnu og með glæsilegu skoti skoruðu þeir beint án þess að Rúnar kæmi vörnum við (66').

Annað jöfnunarmark Heras kom rétt undir lok leiksins enn þá tók Adam Ægir Pálsson hornspyrnu og var það Heras sem átti síðustu snertingu áður en boltinn endaði í marki ÍBV.

Adam Ægir Pálsson komst svo nærri því að eyðileggja Þjóðhátíð Eyjamanna þegar hann fékk dauðafæri í uppbótartíma en honum voru mislagðir fætur og Eyjamenn sluppu með skrekkinn.

Með jafnteflinu er Keflavík komið í efri hluta deildarinnar, upp fyrir KR á markahlutfalli. Bæði lið eru með átján stig í sjötta og sjöunda sæti en KR á leik til góða og mætir KA fyrir norðan á þriðjudag. Fram er skammt undan, með sautján stig í áttunda sæti og mætir Stjörnunni á miðvikudag.