Íþróttir

Grindvíkingar mættu ekki til leiks
Úr leiknum í gær. Mynd/Petra Rós Ólafsdóttir
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 1. september 2023 kl. 09:59

Grindvíkingar mættu ekki til leiks

Grindvíkingar virtust andlega fjarverandi og fengu fyrir vikið skelfilega útreið í Laugardalnum í gær þegar Grindavík og Þróttur áttust við í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Heimamenn réðu lögum og lofum í leiknum og fóru með 5:0 sigur af hólmi.

Grindvíkingar stóðu aðeins uppi í hárinu á Þrótturum á fyrstu mínútunum en eftir að heimamenn komust yfir með marki úr vítaspyrnu (12') fjaraði undan leik Grindavíkur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þróttur skoraði tvö mörk til viðbótar áður en blásið var til hálfleiks (19' og 36') og í seinni hálfleik má segja að einungis eitt lið hafi mætt til leiks.

Fjórða markið leit dagsins ljós á 61. mínútu þegar Þróttur sótti en vörn Grindavíkur var algerlega á hælunum og mistókst að hreinsa frá og sóknarmaður heimamanna náði að klafsa sig í gegnum vörnina og skora. Uppskriftin að fimmta og síðasta markinu var svipuð, Þróttarar þræddu sig í gegnum vörnina og á endanum barst boltinn á fjærstöng þar sem tveir leikmenn Þróttar voru einir og óvaldaðir og færið því klárað auðveldlega (86').

Grindavík er ennþá í sjötta sæti en Þróttur komst upp fyrir Njarðvík með sigrinum. Enn er nokkrum leikjum ólokið í umferðinni og með sigri geta Þór Akureyri, Grótta og Njarðvík öll komist upp fyrir Grindavík á stigatöflunni – ef allt fer á versta veg gætu Grindvíkingar því færst niður um þrjú sæti í þessari umferð og eru þá eru komnir í bullandi fallbaráttu við Selfoss sem Grindavík mætir í næstu umferð.

Í dag fer Grótta á Selfoss en á morgun tekur Njarðvík á móti Leikni Reykjavík og Þórsarar fá ÍA í heimsókn.

Leik Þróttar og Grindavíkur má sjá í spilaranum hér að neðan.