Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Grindavík auðveldlega áfram í Mjólkurbikar kvenna – Njarðvík úr leik
Brynhildur Tyrfingsdóttir, fyrirliði Njarðvíkur, í baráttu um boltann gegn leikmanni ÍH í gær. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 22. apríl 2024 kl. 10:02

Grindavík auðveldlega áfram í Mjólkurbikar kvenna – Njarðvík úr leik

Dröfn skoraði fimm mörk

Fyrsta umferð Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu hófst um helgina. Grindavík og Njarðvík léku sína leiki í gær þar sem Grindavík vann stórsigur á Smára en Njarðvík tapaði stórt fyrir ÍH.

Smári - Grindavík 0:9

Ása Björg Einarsdóttir skoraði fyrsta markið en systir hennar bætti við fimm mörkum. Mynd úr safni VF/JPK

Eins og tölurnar gefa til kynna var sigur Grindvíkinga öruggur. Ása Björg Einarsdóttir skoraði fyrsta markið og kom Grindavík yfir í byrjun leiks (2').

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Næsta mark skoraði Sigriður Emma F. Jónsdóttir (19') og Dröfn Einarsdóttir skoraði tvö fyrir leikhlé (32' og 36').

Grindavík skoraði þrjú mörk með tveggja mínútna millibili í upphafi seinni hálfleiks. Dröfn fullkomnaði þrennuna (46'), og Aubrey Goodwill bætti við sjötta marki Grindavíkur (48') og fyrirliðinn Una Rós skoraði það sjöunda (50').

Það var svo Dröfn Einarsdóttir sem fullkomnaði frábæran leik sinn með tveimur mörkum til viðbótar (61' og 74'), fjórða og fimmta mark hennar í leiknum.

Dröfn Einarsdóttir hefur leikið undanfarin ár með Keflavík í Bestu deild kvenna en hún er snúin aftur til uppeldisfélagsins. Mynd úr safni VF/JPK

Njarðvík - ÍH 0:10

Mæðgurnar Elísabet María Þórisdóttir og Dagmar Þráinsdóttir, spilandi þjálfari Njarðvíkur, voru í byrjunarliðinu í gær. Elísabet að leika sinn fyrsta meistaraflokksleik en Dagmar hugsanlega þann síðasta.

Njarðvík tefldi fram liði í meistaraflokki kvenna í annað sinn og mætti ÍH í gær. Njarðvíkingar eru að móta kvennaliðið og væntingar standa til þess að Njarðvík spili í deildarkeppni KSÍ á næsta tímabili.

Eins og sést var á brattann að sækja fyrir Njarðvík sem lenti undir á 6. mínútu. ÍH, sem hefur að skipa mörgum upprennandi leikmönnum úr FH, skoraði fimm mörk í hvorum hálfleik án þess að Njarðvíkingar næðu að svara en ungt lið Njarðvíkur setur leikinn í reynslubankann og verður gaman að sjá hvernig framhaldið á meistaraflokknum verður.