Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 06:38

Fjallagarpar vilja efla ferðaþjónustu á Reykjanesi

Bókunastaðan mjög góð fyrir sumarið

„Ef jöklaleiðsögumanni er treystandi til að fara með ferðamenn í jöklagöngu eða snjósleðaferð á jöklum ætti að vera hægt að treysta okkur til að fara með ferðafólk til að skoða eldgosið úr öruggri fjarlægð,“ segir Guðmundur Helgi Önundarson, annar eigenda Fjallagarpa en fyrirtækið stofnaði hann fyrir nokkrum árum ásamt eiginkonu sinni, Írisi Ósk Kristjánsdóttur. Reykjanesið er vinsæll staður að fara á en það hefur verið lokað að stórum hluta til síðan 10. nóvember þegar hamfarirnar áttu sér stað í Grindavík. Hjónin horfa björtum augum til framtíðarinnar og eru sannfærð um að Reykjanesið geti orðið vinsælasti ferðamannastaður Íslands en til að svo megi verða þurfi mikla innspýtingu á svæðið.

Segja má að fyrstu frækornunum að Fjallagörpum hafi verið sáð í kringum 1970 þegar Guðmundur var að ferðast með föður sínum um hálendi Íslands. Hann tók ástfóstri við landið sitt og þennan ferðamáta og þegar hann hafði aldur til var hann kominn með farartæki sem hentaði í slík ferðalög. Hann byrjaði að vinna fyrir sér sem leiðsögumaður og kynntist svo Írisi sem hafði sömuleiðis áhuga á fjallaferðum. Eftir að hafa ferðast vítt og breitt um landið með börnin sín fjögur ákváðu þau að gera áhugamálið að sínu lífsviðurværi og stofnuðu Fjallagarpa. Íris byrjaði á að fara yfir upphafsskref fyrirtækisins og fór yfir hvernig ferðir eru í boði.

„Fyrirtækið er stofnað út frá áhuga okkar á göngu og fjallaferðum. Guðmundur er alger fjallageit, þekkir nánast allt fjalllendi Íslands og Reykjanesið eins og handarbakið á sér. Við gengum með þennan draum í maganum, fengum okkur svo okkar fyrsta breytta bíl og í dag gerum við út þrjá bíla í ferðaþjónustu. Þetta er búin að vera vinnan hans Guðmundar í nokkur ár og ég er alltaf að koma meira og meira inn í daglega reksturinn, er einmitt að klára meiraprófið sem er skilyrði til að keyra með ferðamenn og stærsta bílinn okkar sem við köllum Mosa en hann er mikið breyttur ellefu manna Sprinter. Eins og bókunarstaðan fyrir sumarið lítur út væri ég til í að vera með fimm svona bíla, ég gæti selt þá alla daga í allt sumar. Ég á von á að þetta sumar verði alger bomba og er sannfærð um að Ísland eigi helling inni sem ferðamannastaður. Við eigum svo mikið af perlum hér á Íslandi, kúnninn okkar elskar þegar við förum með hann á stað sem hann hafði ekki hugmynd um og hann getur staðið þar í kyrrðinni og notið útsýnisins, hann þarf ekki að fara á Gullfoss og Geysi til að upplifa æðislega íslenska náttúru. Að keyra með erlendu ferðamennina hér á Reykjanesinu er líka mikil upplifun fyrir þá, þeim finnst eins og þeir séu á tunglinu. Við Íslendingar tökum þessu sem sjálfsögðum hlut en ferðamönnunum finnst landið okkar vera einstakt.

Á síðasta ári fórum við rúmar 70 ferðir en hver ferð er allt frá degi upp í tíu daga, við fórum t.d. á föstudaginn langa í tveggja daga ferð með fjölskyldu frá Bandaríkjunum. Viðskiptavinahópurinn er að langstærstum hluta til erlendir ferðamenn en það er alltaf að aukast að íslensk fyrirtæki bjóði starfsfólki upp á hvataferðir með okkur, við höfum verið með steggjanir og gæsanir og eitt sinn fór Guðmundur með erlent par sem gifti sig í bílnum uppi á hálendinu. Erlendu ferðamennirnir eru hinir betur borgandi ferðamenn sem eru búnir að skipuleggja ferð sína frá a til ö. Við vinnum þetta mikið með ferðaskrifstofum, þar erum við saumuð inn í skipulag ferðarinnar og eins og ég segi, allt skipulagt í þaula, hvar sé gist o.s.frv,“ segir Íris.

Lok, lok og læs í Grindavík

Fjallagarpar hafa ekki getað farið eins víða á Reykjanesinu og áður vegna hamfaranna í Grindavík en Guðmundur vill meina að ferðaþjónustuaðilum, sem hlotið hafa þjálfun, fræðslu og undir leiðsögn, sé vel treystandi til að fara með ferðafólk inn á svæðið.

„Við virðum náttúruna okkar og við viljum fara vel með hana, við viljum samt líka geta sýnt ferðamönnunum hana af öryggi. Við erum t.d. með æðislega fjöru hér á Reykjanesinu, Sandvíkina, þessi fjara er ekkert síðri en aðrar fjörur á Suðurströndinni. Við getum gert miklu meira út á margt hér á Reykjanesinu og ég trúi því að ef alvöru innspýting kæmi inn á svæðið gæti það orðið eins vinsælt eins og Gullni hringurinn. Þetta er búið að vera erfitt fyrir okkur og aðra ferðaþjónustuaðila á Reykjanesi í vetur vegna lokana í Grindavík, það var alltaf hluti af ferðinni á Reykjanesið að keyra í gegnum Grindavík og stoppa þar og fá sér hressingu. Mér finnst þessar lokanir of ýktar. Með því að eiga samtalið við lögregluyfirvöld þá er hægt að búa þannig um hnútana að við getum farið með ferðafólk til að skoða eldgosið úr öruggri fjarlægð. Að sjálfsögðu þurfum við að setja öryggið á oddinn, það er stundum gasmengun og það eru sprungur en við erum þjálfuð til að gæta að öryggi okkar farþega og erum með nauðsynlegan búnað. Ef maður spáir í það þá er ekki allur munurinn á ferðaleiðsögumanni á jöklum, sem er með ferðafólk í jöklagöngu eða á snjósleðum, eða fyrir okkur að fara með fólk til Grindavíkur. Jöklaleiðsögumaður fær ekki að fara með ferðamenn á jökulinn nema vera búinn að fara á námskeið, sama á að geta átt við okkur varðandi að fara inn til Grindavíkur. Við eigum að vita af hættunum og erum með nauðsynlegan búnað til að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Stundum eru aðstæður þannig á fjalli vegna veðurs að það er ófært, það sama getur gilt í Grindavík, kannski er of mikil gasmengun á tilteknum degi og þá er ekki hleypt inn á svæðið. Þetta má virða en að hafa svona stóran hluta af Reykjanesinu alfarið lokaðan eins og verið hefur síðan 10. nóvember gengur ekki til lengdar. Við þurfum að sækja alla okkar farþega til Reykjavíkur í dag eða fara með gestinn okkar af Reykjanesinu, það eru auka 80 km með tilheyrandi auknum eldsneytiskostnaði. Ég vona að það verði slakað á þessum kröfum og okkur boðið að borðinu til viðræðna. Ég myndi treysta mér fullkomlega til að fara með ferðafólk inn til Grindavíkur eftir að búið væri að fara yfir með mér hverjar hætturnar eru og hvers væri ætlast til af okkur. Þetta væri líka það besta fyrir svæðið, að hleypa ferðafólki inn sem myndi rífa símana upp og taka myndir. Jákvæð umfjöllun er það sem þetta svæði þarf. Ég heyri á Grindvíkingum að það er hugur í þeim að byggja sitt flotta bæjarfélag aftur upp, svona lagað yrði mjög jákvæður hluti af slíkri uppbyggingu, ekki bara fyrir Grindavík heldur fyrir ferðaþjónustu á Reykjanesinu, já eða öllu Íslandi.“

Reykjanesið á helling inni

Guðmundur er mjög hrifinn af Reykjanestánni og sér fyrir sér að þar væri hægt að gera mjög flotta hluti í ferðaþjónustunni.

„Það var búið að setja þjónustumiðstöð á teikniborðið á Reykjanestánni en ég sé hvorki tang né tetur af henni. Fyrsta skóflustungan var tekin fyrir nokkrum árum en svo hefur ekkert gerst. Ég myndi vilja sjá þessa þjónustumiðstöð flottari en þá sem er við Gullfoss, sú er bara á einni hæð en ég myndi vilja sjá þjónustumiðstöð hér á tveimur hæðum með veitingasölu. Útsýnið væri stórfenglegt, ekki bara á blíðviðrisdegi. Að sjá brimið berja á Karlinum [50 til 60 metra hár klettur rétt fyrir utan Reykjanestána] í suðvestan hvassviðri er mjög tignarleg sjón. Brimketill er ekki svo langt héðan, það er sömuleiðis magnað að vera þar þegar brimið lemur á klettunum. Allt þetta svæði er þakið sögu, Ísland er hluti af Atlandshafshryggnum sem kemur upp úr Atlantshafinu og varð til í eldgosum á milljónum ára, það finnst ferðamanninum mjög merkilegt. Við erum með flekaskilin þar sem Ísland færist í sundur frá vestri til austurs um tvo sentimetra á hverju ári, tuttugu kílómetra á milljón árum, við erum með brú milli heimsálfa, við erum með Gunnuhver og svona gæti ég lengi haldið áfram. Ég er sannfærður um að ef alvöru innspýting kæmi inn á svæðið og svo ég tali nú ekki um þegar Grindavík opnar, að þá getur þetta orðið vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi,“ sagði Guðmundur að lokum.

Fjallagarpar vilja efla ferðaþjónustu á Reykjanesi