Public deli
Public deli

Fréttir

Áfram auknar líkur á nýju kvikuhlaupi
Frá eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni fyrr á þessu ári. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 2. maí 2024 kl. 12:22

Áfram auknar líkur á nýju kvikuhlaupi

Líklegast er að nýjar gossprungur opnist á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara. Þetta er önnur af tveimur líklegustu sviðsmyndum sérfræðinga Veðurstofu Íslands hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni. Hin er að einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg og áköf smáskjálftahrina í og við kvikuganginn og landsig í Svartsengi.

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi samanteki:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Áfram mælist landris við Svartsengi og hefur hraðinn haldist óbreyttur síðustu vikur (sjá mynd hér að neðan). Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að vísbendingar væru um að hægt hefði á því dagana á undan. Mælingar síðan þá sýna að hraðinn hefur haldist jafn ef horft er til síðustu vikna. Þrýstingur heldur því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu og líkur er á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Skjamynd-2024-05-02-104618_Aflogun_SKHS_02052024

Grafið sýnir lóðrétta færsla á GPS stöðinni SKSH í Svartsengi. Mælingarnar sýna að hraði landriss hefur haldist nokkuð stöðugur allt frá því í byrjun apríl. Bláa línan táknar tímasetningu kvikuinnskotsins sem leiddi ekki til goss, en sú rauða táknar upphaf eldgossins sem nú er í gangi.

Skjálftavirkni hefur aukist á Sundhnúksgígaröðinni síðustu daga. Um er að ræða smáskjálfta sem eru líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Hraunflæði úr gígnum er umtalsvert minna en það var fyrir þremur vikum. Hraunflæðið eins og það er í dag er metið verulega lítið en þó þarf að reikna með því að gosið haldi áfram í einhvern tíma þrátt fyrir þetta litla hraunflæði.

Lava_time_series_april_15_25_30_compare

Meðfylgjandi kort sýnir breytingar á þykkt hraunbreiðunnar á milli 15., 25. apríl og 30. apríl.

Hraun úr gígnum hefur undanfarnar vikur hlaðist upp við varnargarða austan Grindavíkur. (L12 á myndinni hér að ofan). Ef kraftur gossins eykst eða nýjar sprungur opnast suður af núverandi gosopi, þarf að gera ráð fyrir framrás hraunjaðarsins við varnargarða austan Grindavíkur. Á laugardaginn, 27. apríl, fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Hætta er á að slíkum tilfellum fjölgi, ef kraftur gossins eykst á ný.

Þessar tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

  • Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

  • Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg og áköf smáskjálftahrina í og við kvikuganginn og landsig í Svartsengi.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt og gildir til 7. maí, að öllu óbreyttu.

Hér má svo gasmengunarspá veðurvaktar.