Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Fréttir

Umtalsvert tjón af völdum hraunrennslis verði eldsumbrot á óheppilegum stað
Ljósmynd/Jón Steinar Sæmundsson
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 23. september 2023 kl. 06:11

Umtalsvert tjón af völdum hraunrennslis verði eldsumbrot á óheppilegum stað

Langtímahættumat Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns. Hrauna-, gasmengunar- og gjóskufallsvá.

„Grindavík er eina þéttbýlið á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns sem er útsett fyrir hraunvá. Í ljósi þess að síðustu þrjú gos á Reykjanesskaga áttu sér stað í Fagradalsfjalli er það einnig líklegur hraunrennslisstaður. Bláa lónið, virkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi og vatnstökusvæði í Lágum eru útsett fyrir hraunrennsli,“ segir í langtímaáhættumati Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns.

Veðurstofa Íslands hefur unnið langtímahættumat vegna eldvirkni á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns sem veitir upplýsingar um væntanleg hættusvæði af völdum eldgosa; hraunrennslis, gasmengunar og gjóskufalls. Áhersla í skýrslunni er á hve útsett eða berskjölduð svæði eru fyrir hraunrennsli, gjóskufalli og gasmengun (SO2) frá eldsumbrotum innan fjögurra eldstöðvakerfa á Reykjanesskaga en kerfin eru Reykjanes, Svartsengi, Fagradalsfjall og Krýsuvík. Í skýrslunni var sérstaklega litið til þéttbýlis, þ.e. Grindavíkur, Voga, Reykjanesbæjar (Keflavíkur, Njarðvíkur, Ásbrúar og Hafna) og Suðurnesjabæjar (Sandgerðis og Garðs). Einnig virkjana og iðnaðarsvæða (s.s. Svartsengis og Reykjanesvirkjunar) og fjölsóttra ferðamannastaða (s.s. Keflavíkurflugvallar, Bláa lónsins og Fagradalsfjalls) og neysluvatns (vatnstökusvæðis í Lágum). Skýrslan hefur m.a. verið lögð fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar til kynningar.

Líklegra að eldsuppkoma verði á sunnanverðum skaganum

Í útdrætti skýrslunnar segir að hraunrennsli var hermt frá nærliggjandi eldstöðvakerfum. Líklegra er að eldsuppkoma verði á sunnanverðum skaganum og mannvirki á því svæði geta orðið fyrir skemmdum vegna hraunrennslis. Að auki geta hraun runnið til norðurs verði eldsuppkoma nærri miðjum skaganum. Gasmengun var hermd frá vestustu eldstöðvakerfum Reykjanesskagans. Litlar líkur eru á alvarlegri gasmengun á Reykjanesskaga en þær aðstæður geta þó skapast að loftgæði verði slæm og að hættuástand skapist. Gjóskufall var hermt frá stöku gosopi suðvestur af Reykjanestá. Líklegast er að gjóskufall valdi einungis skammvinnum áhrifum en það dregur úr skyggni og getur stöðvað flugvallarstarfsemi í ákveðinn tíma. Mest áhrif eru af gjóskufalli í upphafi goss þegar gjóska fellur til jarðar en eftir að gjóskufalli lýkur getur gjóskufok haft slæm áhrif á skyggni og loftgæði í langan tíma.

Skýrsla Veðurstofu Íslands er 35 síður en helstu niðurstöður eru teknar saman en þær eru:

Gosupptök

Þau gosop sem þekkt eru á skaganum eru staðsett sunnan megin á skaganum, umhverfis meinta legu flekaskila Evrasíu og Norður-Ameríkuflekanna, og framleiðni kerfanna virðist mest þar sem sprungusveimar eldstöðvakerfa skagans þvera flekaskilin. Því er líklegt að framtíðargosop opnist einnig sunnan megin á skaganum þó svo að ekki sé hægt að útiloka kvikuhlaup til norðurs.

Hraunavá

Reykjanesskagi er byggður upp af hraunum og móbergsstöpum sem sýnir að hraun hafa runnið nánast hvar sem er á skaganum á einhverjum tímapunkti í myndunarsögunni. Jarðfræði Reykjanesskagans bendir til að hverfandi líkur séu á að gosupptök verði vestan við skilgreind mörk eldstöðvakerfis Reykjaness en þar eru þéttbýliskjarnar Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar staðsettir. Hermd hraun sem hafa áhrif þar eiga því upptök innan skilgreindra eldstöðvakerfa og ná að renna inn í þéttbýlin. Keflavíkurflugvöllur er vel staðsettur á Miðnesheiði þar sem afar ólíklegt er að hraun hafi áhrif á innviði. Vogar eru staðsettir nyrst á skaganum og ólíklegt er að gosupptök verði þar í grennd. Hraunvá er því lítil í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Vogum og á Keflavíkurflugvelli.

Grindavík er eina þéttbýlið á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns sem er útsett fyrir hraunvá. Í ljósi þess að síðustu þrjú gos á Reykjanesskaga áttu sér stað í Fagradalsfjalli er það einnig líklegur hraunrennslisstaður. Bláa lónið, virkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi og vatnstökusvæði í Lágum eru útsett fyrir hraunrennsli. Niðurstöður hraunhermana hafa verið notaðar til að afmarka þau upptakasvæði sem veitt geta hrauni inn í Grindavík, Þórkötlustaðahverfi, Voga, Reykjanesbæ, Bláa lónið, Svartsengi og vatnstökusvæði í Lágum en upptök lítilla gosa sem náðu að veita hraunum inn á athugunarsvæðin voru mest í tæplega 3,5 km fjarlægð og upptök meðalstórra gosa í mest um 6 km fjarlægð.

Gasmengunarvá

Niðurstöður hermana gefa til kynna að litlar líkur séu á alvarlegri gasmengun á Reykjanesskaga. Jafnframt sýna þær að Miðnesheiði sé líklegasta svæðið til að verða fyrir gasmengun við jörðu vegna eldgosa frá eldstöðvakerfum Reykjaness, Svartsengis og Krýsuvíkur. Miðað við forsendur sem hermanir byggja á (magn losunar og veðurgögn) eru meiri líkur á víðfeðmum mengunaráhrifum frá gosum innan Krýsuvíkurkerfisins en innan Reykjaness- og Svartsengiskerfanna. Gasmengun hefur ekki teljandi áhrif á innviði en veldur ama og getur haft áhrif á heilsu manna og dýra. Þó svo að litlar líkur séu á að hættuástand skapist (þ.e. að styrkur SO2 fari yfir 14.000 µg/m3) getur það gerst nánast hvar sem er skv. niðurstöðum einstakra hermana.

Gjóskufallsvá

Miðað við þær forsendur sem gjóskudreifingarhermanir byggja á (upptök goss SV af Reykjanestá, stærð, gosmakkarhæð og veðurgögn) getur meira en 10 sm gjóskulag myndast vestast á Reykjanesskaga en meiri líkur eru á að þykkara gjóskufall myndist á skaganum sé gosmökkur lágur. Gjóskufall gæti valdið röskun á starfsemi Keflavíkurflugvallar og haft áhrif á viðnám á flugbrautum, gæti truflað löndun á hafnarsvæðum og orðið til þess að hráefni spillist standi það of lengi. Gjóskufall er ólíklegt til að hafa áhrif á virkjanir og vatnstökusvæði þar sem framleiðslukerfi eru lokuð. Gjóskufall heftir aðgengi að svæðum og spillir skyggni og eftir að gjóskufalli lýkur getur endurflutningur eða gjóskufok einnig spillt loftgæðum og skyggni. Gjóska getur hulið vegmerkingar og haft áhrif á viðnám gatna en hefur ekki teljandi áhrif á innviði á þéttbýlissvæðum. Fólk sem dvelur utandyra í gjóskufalli getur upplifað öndunar- og sjónerfiðleika í gjóskufalli og eins í roki og gjóskufoki stuttu eftir gjóskufall.

Frá langtímahættumati yfir í skammtímahættumat

Þá segir í samantektarhluta skýrslunnar: „Hver atburður er einstakur og þegar rauntímagögn úr eftirlitskerfi benda til að nýtt gos sé yfirvofandi tekur skammtímahættumat við. Þar eru stillingar líkana úr langtímahættumati nýttar, hermanir gerðar með nýjum forsendum (s.s. gosupptökum) og öll gögn uppfærð m.t.t. nýrra upplýsinga. Þannig fæst betri mynd af því hvaða svæði eru útsett fyrir hraunrennsli, gasmengun og gjóskufalli frá einstökum atburðum. Þegar eldgos hefst eru keyrðar gas- og gjóskudreifingarspár sem byggja á bestu fyrirliggjandi upplýsingum og nýjustu veðurspám en þær spár eru aðgengilegar á https://dispersion.vedur.is. Til að spá fyrir um framvindu hraunrennslis daga og vikur fram í tímann þarf að endurstilla líkön og keyra á ný með tilliti til nýrra upplýsinga.“

Innviðir

Í aðdraganda goss í Fagradalsfjalli árið 2021 var stofnaður starfshópur á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem fór yfir varnir mikilvægra innviða og einn hluti niðurstaðna þess hóps var ítarleg samantekt á innviðum á svæðinu umhverfis Grindavík og Voga. Innviðir á Reykjanesskaga sem gætu orðið fyrir áhrifum af eldgosum á skaganum eru þéttbýli og allar tegundir innviða sem þar eru, rafmagns- og vatnsveita (heitt og kalt vatn), fráveita og lagnir að og frá byggðum, fjarskiptainnviðir, atvinnustarfsemi og samgöngumannvirki (vegir og flugvellir). Komi til eldsumbrota á óheppilegum stað á skaganum getur orðið umtalsvert tjón af völdum hraunrennslis. Gasmengun og gjóskufall hafa lítil áhrif á innviði sem slíka en geta valdið röskun á atvinnustarfsemi, samgöngum og valdið almennum ama.

reykjanesbaer.is/static/files/Fundargerdir/baejarrad/2023/1434/04-reykjanes-opin-skyrsla-final-vi-2023-003-reykjanes-20230823.pdf